154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held í fyrsta lagi að það sé mjög mikilvægt þegar við gerum breytingar á skattkerfinu, sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni í lok síns máls, að þar séum við með kerfi sem er gagnsætt. Það að fara að meta fátækt hverju sinni — kerfið er þrepaskipt, við erum með neðsta þrepið í tekjuskattskerfinu og lækkun á því gagnast best tekjulægstu hópunum. Þrepaskipt skattkerfi snýst náttúrlega um að auka jöfnuð í samfélaginu og eins og ég fór yfir áðan er það jöfnuður í samfélaginu sem skiptir mestu til að draga úr fátækt. Þrepaskipt skattkerfi er liður í því.

Hv. þingmaður nefnir hér fátækt barna og þar eru ólíkar mælingar undir, eins og hv. þingmaður fór hér yfir í sínu máli. Þetta eru ólíkar mælingar sem er verið að bera saman en tökum bara áhrifin af tilfærslukerfum hins opinbera sem skipta svo miklu máli í þessu. Alls voru tæplega 48.000 einstaklingar undir lágtekjumörkum árið 2020. Þeir hefðu verið 56.000 ef ekki hefðu verið til staðar húsnæðis- og barnabætur og þar sjáum við áhrif tilfærslukerfanna fyrir t.d. þessa 8.000 einstaklinga. Þannig að það er svo sannarlega verið að horfa til nákvæmlega þessara hópa í aðgerðum stjórnvalda. (IngS: Eigum við ekki bara hætta að horfa og hjálpa þeim?)