154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:05]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þetta svar en ég er dálítið hissa á því þegar hún segir að heilt yfir sé þróunin í rétta átt vegna þess að þeir sérfræðingar sem semja þessa skýrslu nota lágtekjuhlutfall sem mælikvarða á afstæða fátækt og komast að þeirri niðurstöðu að vissulega hafi lágtekjuhlutfall lækkað. Það hefur dregið úr afstæðri fátækt frá árinu 2000, frá aldamótum, en hins vegar hefur það hækkað lítillega á allra síðustu árum og það er meira að segja tekið sérstaklega fram að áhrif hækkandi verðbólgu og vaxta séu ekki inni í þessu og kunni að eiga eftir að koma fram og bent á skýrslu Vörðu um að æ fleiri eigi erfitt með að ná endum saman. Ég er því pínulítið hissa á því að hæstv. forsætisráðherra skuli engu að síður halda því fram að heilt yfir sé þróunin í rétta átt og myndi gjarnan vilja bara aðeins ítarlegri skýringar á því hvers vegna hún heldur því fram. (Forseti hringir.) Vissulega er þróunin frá aldamótum í rétta átt. Mér sýnist engu að síður skýrslan ætti einmitt að vera okkur vitundarvakning um að það þurfi að gefa í þegar kemur að því að styrkja tilfærslukerfi okkar (Forseti hringir.) og beita réttlátari skattheimtu til þess einmitt að draga úr fátækt og ójöfnuði á Íslandi. Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um það?