154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:11]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra las upp úr þessari skýrslu. Hún las hins vegar ekki það að því miður sýna síðustu tölur sem gefnar hafa verið út af Hagstofu Íslands að á Íslandi er aftur vaxandi fátækt barna, 13,1% árið 2022. Vissulega minnkaði hún frá 2015–2021 en þá vorum við líka í gríðarlegum hagvexti. Af hverju? Af því að við vorum að koma út úr hruninu. Það breytir því ekki að þessi skýrsla sýnir fram á að við erum einungis á grænu ljósi þegar kemur að eftirskólaprógrömmum, varðandi ókeypis og niðurgreidda þjónustu við börn eftir skóla. Við erum ekki með neina þjóðarstefnu varðandi fátækt barna, enga tölfræði um fátækt fjölskyldna og við erum ekki með neina vísa sem á að nota í baráttunni gegn fátækt barna og fátækt fjölskyldna. (Forseti hringir.) Við setjum okkur engin markmið í að minnka fátækt barna eða lágtekjufjölskyldna o.s.frv. (Forseti hringir.) Ég er bara kominn að fimmta atriðinu hér, þetta eru tíu atriði. Við erum á grænu í einu. Hvernig stendur á þessu?