154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:13]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er efnismikil og vönduð skýrsla og góð umræða sem hér á sér stað. Afstæð fátækt er eiginlega meginviðfangsefni þessarar skýrslu og lágtekjuhlutfallið er sá mælikvarði sem er lagður til grundvallar, þ.e. hlutfall þeirra sem eru með ráðstöfunartekjur undir 60% af miðgildi ráðstöfunartekna í landinu á hverjum tíma. Þetta er auðvitað ekki bara mælikvarði á fátækt heldur mælikvarði á ójöfnuð, hversu margir hafa lágar tekjur í samanburði við það sem almennt gengur og gerist í samfélaginu. Fátækt í þessum skilningi er ekki einhver náttúruleg niðurstaða. Fátækt, rétt eins og auðlegð, er afleiðingin af pólitískum og samfélagslegum ákvörðunum sem hafa verið teknar og eru teknar m.a. í þessum sal og við ríkisstjórnarborðið á hverjum tíma. Þetta eru ákvarðanir um það hvernig þeim verðmætum sem verða til í samfélaginu er dreift.

Þetta er eitthvað sem ég held að sé mikilvægt að við minnum okkur á aftur og aftur, að fátækt er ekki náttúrulögmál heldur hápólitísk niðurstaða og það sama gildir um ríkidæmi. Nú á t.d. ríkasta eina prósentið á Íslandi samtals meira en 1.000 milljarða í eigin fé og fólkið á þessar eignir ekki bara vegna þess að það hefur erft eða fjárfest skynsamlega, dottið í lukkupottinn eða fengið að njóta rentunnar af takmörkuðum auðlindum, heldur á fólk þessar eignir vegna þess að við sem samfélag lítum á eignarréttinn sem mikilvæg mannréttindi og beitum mætti ríkisvaldsins til þess að verja hann. Þetta er réttur sem við höfum bundið í stjórnarskrá, það sama gildir reyndar um réttinn til aðstoðar vegna örbirgðar, sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis o.fl. Það er svo bæði lögfræðilegt og pólitískt viðfangsefni að gefa þessum réttindum inntak og ákveða hvernig samspilið á milli þeirra er. Höfum þetta í huga: Það vinnur sér enginn inn tekjur og nýtur þeirra og það getur enginn eignast neitt án þeirrar umgjarðar sem hið opinbera markar með lögum og reglum og án þeirrar umgjarðar sem hið opinbera viðheldur með löggæslu, dómstólum, útgáfu peninga, uppbyggingu samgönguinnviða og svona mætti lengi telja. Markaðshagkerfið er búið til með ríkisafskiptum, munum það. Hið sama gildir um þá tekju- og eignadreifingu sem markaðshagkerfið elur af sér. Ég sem jafnaðarmaður er sannfærður um að fólkið sem verður ofan á í þessu kerfi sem við höfum komið okkur upp, fólkið sem helst nýtur góðs af varðstöðu okkar um eignarréttinn og þetta kerfi, eigi að greiða langsamlega mest fyrir viðhald kerfisins í heild.

Fátækt er því hápólitísk og ójöfnuður pólitísk niðurstaða. Ég hef tamið mér að hugsa um fátækt og ójöfnuð út frá mjög gagnlegum hugmyndum sem bandaríski stjórnmálaheimspekingurinn John Rawls setti fram á áttunda áratug síðustu aldar, að ójöfnuður sé í rauninni siðferðilega óréttlætanlegur nema þegar einhver ójöfn skipting er þeim til hagsbóta sem eru verst settir. Þorsteinn Gylfason heitinn kallaði þetta fjalldalaregluna. Fjöll mega ekki vera hærri og tignari, sagði hann, en til þess þarf að dalirnir séu sem blómlegastir og byggilegastir. Bak við þessa hugsun býr líka sú sannfæring að okkar líffræðilegu eiginleikar, það hvað við fáum í vöggugjöf, sé algjörlega óverðskuldað; alveg jafn óverðskuldað og það inn í hvaða fjölskyldu eða stétt við fæðumst. Við ákveðum ekki hvaða hæfileika við fæðumst með og jafnvel þegar við höfum lagt á okkur að þroska hæfileika okkar og líður kannski eins og það sé eitthvað sem við höfum sannarlega gert af sjálfsdáðum og við eigum skilið af öllum mætti að njóta erfiðisins, þá er það oftast þannig að það veltur að verulegu leyti einmitt á þessum félagslegu þáttum; uppeldi, fjölskylduaðstæðum o.s.frv. Að þessu leyti held ég að þeir sem tala hvað mest fyrir jöfnum tækifærum og horfa kannski í gegnum fingur sér með ójöfnuð og fátækt í þeim skilningi sem við tölum um hana í dag séu á villigötum. Eina leiðin til að tryggja raunverulega jöfn tækifæri er að auka jöfnuð í samfélaginu almennt, jöfnuð þegar kemur að tekjum og eignum, stuðla að frekari og jafnari skiptingu þeirra verðmæta sem verða til almennt og jafna leikinn gagnvart frumgæðum samfélagsins. Einmitt þannig verjum við frelsi fólks og jöfn tækifæri.

Ef við styðjumst við fjalldalaregluna sem ég lýsti hér áðan, horfum aðeins í kringum okkur og skoðum sögu síðustu áratuga og hvaða þýðingu þetta hefur fyrir pólitík og efnahagsmál, skatta og útgjöld og samfélagsgerðina hér og annars staðar, þá er kannski athyglisvert til þess að hugsa að það eru einmitt þau ríki sem beita ríkisvaldinu af mestum þunga til þess að auka jöfnuð með réttlátri skattheimtu, sterkum tilfærslukerfum og mikilli skattheimtu sem hafa líka skarað fram úr þegar kemur að verðmætasköpun, efnahagslegri skilvirkni, hagvexti og háu atvinnustigi: Norðurlöndin. Þetta eru löndin þar sem skattar eru langhæsta hlutfallið af vergri landsframleiðslu. Þetta eru líka einhver skilvirkustu, sterkustu og þróttmestu samfélög í heimi þegar kemur að því að skapa verðmæti. Mýtan um að aukinn jöfnuður dragi einhvern veginn kraftinn úr hagkerfinu og geri alla fátækari á endanum hefur því verið afsönnuð mjög rækilega í Vestur-Evrópu. Ekki er þar með sagt að fátækt hafi verið útrýmt. Ójöfnuður er vandamál og hefur verið að aukast á Norðurlöndunum. Ójöfnuður er líka vandamál í þeim löndum þar sem lágtekjuhlutfallið er lægst og Gini-stuðullinn lægstur. Ísland kemur mjög vel út úr alþjóðlegum samanburði en það breytir ekki því að vissulega grasserar fátækt á Íslandi og skýrslan sem við ræðum hér í dag er mjög mikilvægt plagg til að varpa ljósi á þróunina.

Hæstv. forsætisráðherra fór mjög vel yfir meginniðurstöður skýrslunnar, m.a. út frá tilteknum hópum, þannig að ég ætla að stytta ræðu mína hvað varðar þau atriði. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem vöktu sérstaka athygli mína við lestur skýrslunnar og ekki hefur verið rætt um hér. Í fyrsta lagi eru það staðreyndir sem koma fram um þróun lágtekjuhlutfalls hjá eldra fólki. Lágtekjuhlutfallið lækkaði mjög rækilega á árunum eftir hrun og hélst lágt og stöðugt á tímabilinu 2009–2013. Þetta er, segja skýrsluhöfundar, til marks um að staða hópsins hafi versnað minna en annarra aldurshópa á árunum eftir hrun. Þetta er mjög mikilvægt. Eftir það hækkaði hlutfallið lítillega til 2016, lækkaði svo aftur eftir mikilvægar breytingar á ellilífeyriskerfinu 2016–2017 og hefur haldist tiltölulega stöðugt síðan. Ef við skoðum svo hinn hópinn sem reiðir sig á almannatryggingakerfið, fólk með skerta starfsgetu sem er ekki komið á eftirlaun, öryrkja, þá er sagan mjög svipuð. Á endurreisnarárunum eftir hrun lækkaði lágtekjuhlutfall öryrkja umtalsvert og skýrsluhöfundar orða það sem svo að hrunið hafi þrengt minna að þessum hópi en samanburðarhópnum. Auðvitað er ekki þar með sagt að ekki hafi þrengt að þessum hópi og fólk hafi ekki haft það ömurlegt eftir hrun. En þetta er engu að síður niðurstaðan af pólitískri stefnumörkun sem hér var farið í eftir hrun við mjög erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum. Það er sláandi að sjá hve mikið lágtekjuhlutfall öryrkja hækkar svo þegar hægri stjórn tekur við árið 2013 og því er pólitík í þessu öllu.

Loks vil ég gera allra síðustu ár aðeins að umtalsefni og ég gerði það reyndar áðan í andsvari við hæstv. forsætisráðherra. Það er ánægjulegt að börnum sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum hafi fækkað á undanförnum árum en hins vegar hljóta að vera okkur öllum vonbrigði að lágtekjuhlutfall almennt skuli hafa hækkað frá árinu 2016. Að sama skapi eru það vonbrigði að fátækt hafi dýpkað í þeim skilningi sem fjallað er um í skýrslunni eftir árið 2016. Ef hæstv. forsætisráðherra sá fyrir sér við myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum árið 2017 að stjórnin gæti náð markvissum árangri í að draga úr fátækt, draga úr afstæðri fátækt, þá bendir þessi skýrsla því miður til þess að það hafi ekki tekist. Að sama skapi er náttúrlega bent á að áhrifin af verðbólgu og vaxtahækkunum undanfarið séu ekki komin fram, tölurnar nái ekki nógu langt til þess. Það verður auðvitað mjög athyglisvert að sjá, og við ræddum þetta áðan, hvernig þetta spilast í samspili við ákveðnar aðgerðir sem hefur verið ráðist í en hefðu mátt vera svo miklu meira afgerandi að okkar mati. En því miður er það þannig að önnur gögn sem liggja fyrir, t.d. úttekt Vörðu sem byggir á samtímaupplýsingum, líklega allra nýjustu upplýsingum sem við höfum um það hversu mörg heimili eiga erfitt með að ná endum saman, sýna að það hlutfall hefur farið hækkandi á milli ára og æ fleiri heimili þurfa t.d. að neita sér um að kaupa tómstundaiðkun fyrir börnin sín. Þetta er áhyggjuefni.

Virðulegur forseti. Ærin verkefni eru fram undan. Við þurfum að beita okkur af fullum þunga gegn fátækt og ójöfnuði. Það gerum við með sterkum tilfærslukerfum, sterkum almannatryggingum, með réttlátri skattheimtu og sterkri almannaþjónustu sem allir hafa aðgang að. Við gerum þetta með lausnum jafnaðarstefnunnar sem hafa lagt grunn að bestu samfélögum í heiminum. Áfram gakk.