154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:31]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í fyrsta lagi vil ég taka undir það sem sagt er um leikskólamálin. Ég held að þessi staða sem nú er uppi hafi alveg gríðarleg áhrif á stöðu ungra barnafjölskyldna og það veldur manni áhyggjum að við séum á þessum stað 2023. En ég tek líka undir að það má vel sjá fyrir sér einhverja blöndu af því að lengja fæðingarorlof lítillega til að mæta þessari stöðu.

Fyrst og fremst langaði mig að fara upp til að ræða aðeins það sem hv. þingmaður nefndi um atvinnustefnu, því að ef við skoðum hvernig atvinnustefna stjórnvalda hefur birst í raun og veru allt frá því eftir hrun þá hefur hún fyrst og fremst birst í því að styðja við rannsóknir og nýsköpun. Það hefur verið hin markvissa stefna að auka hlut þekkingargeirans og sannanlega hefur sá hluti aukist. Hins vegar var líka lagt af stað í það eftir hrun, og ég man vel eftir því þegar ég sat í þeirri stjórn, að styrkja ferðaþjónustuna og markaðssetja Ísland og má segja að gosið í Eyjafjallajökli hafi kannski orðið mjög óvæntur stuðningsaðili þeirrar markaðssetningar, sem enginn sá fyrir.

Mér fannst það merkilegt sem hv. þingmaður sagði um atvinnustefnuna. Hvernig sæi hann það fyrir sér og er hann þá að hugsa um aukna skattlagningu á ferðaþjónustu til að draga úr gildi hennar, því að vissulega hefur mikilvægi hennar verði ótvírætt þegar kemur að því að afla gjaldeyristekna? Mig langaði aðeins að biðja hv. þingmann að kafa dýpra.