154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:33]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hæstv. forsætisráðherra fyrir spurninguna. Ég held að það sé ekki hægt að tala um atvinnustefnu án þess einmitt að huga að skattaumhverfinu. Nú hefur staðan verið þannig á undanförnum árum að ferðaþjónustan er í öðru virðisaukaskattsþrepi en flestar aðrar greinar og það má velta fyrir sér hvort það samræmist þeirri nálgun sem hæstv. forsætisráðherra reifaði hér og ég styð, að fyrst og fremst sé lögð áhersla á að efla hugvits- og nýsköpunargreinar. Að sama skapi held ég að það mætti reyndar skoða ýmiss konar gjaldtöku í ferðaþjónustu og þurfum við ekki endilega að einblína á virðisaukaskattinn sem einhverja lausn til þess að halda aftur af stjórnlausum vexti þar. Það eru auðvitað ýmsar leiðir og ég styð og líst ágætlega á þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin hefur farið í þegar kemur að því að tryggja betri dreifingu ferðaþjónustunnar. Það var einmitt rætt í Silfrinu núna á dögunum og viðmælendur voru sammála um að það hefði gefist okkur vel að hver ríkisstjórnin á fætur annarri eftir hrun hefur verið sammála um það að reyna að auka fjölbreytni atvinnuveganna með því að innleiða hvata til nýsköpunar- og hugvitsgreina og reyna þannig að byggja upp nýjar og sterkari greinar, nýja sprota og fleiri stoðir undir útflutningstekjurnar okkar.