154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég náði að hlusta á nær alla ræðu hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar en ég verð bara að segja eins og er að ég hef ekki hugmynd um stefnu Samfylkingarinnar eftir að hafa hlustað á þessa ræðu og hvernig þau ætla að taka á fátækt. Það eru bara sterk tilfærslukerfi, sterkt almannatryggingakerfi, jafnaðarstefna, draga úr fátækt, auka jöfnuð. Ég bara spyr mig: Hvað þýðir þetta á mannamáli? Eftir hrun voru Samfylkingin og Vinstri græn við völd og lækkuðu flatt í almannatryggingakerfinu um 10% og lofuðu að endurskoða það og hækka aftur, sem var aldrei gert. Frekar voru laun þingmanna hækkuð og þeirra sem mest höfðu. Á þeirra vegum var sérstaka uppbótin líka sett á, sem er mesti skaðvaldurinn og fátæktarvaldurinn í kerfinu. Það var dregið úr krónu á móti krónu skerðingunni niður í 65 aura á móti krónu. Er Samfylkingin tilbúin að taka þessar skerðingar í burtu og jafnvel fleiri skerðingar? Samfylkingin virðist ekki hafa verið tilbúin til þess áður, en er hún tilbúin til þess núna að styðja frumvarp Flokks fólksins um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlausar greiðslur sem við höfum fjármagnað með tilfærslukerfi í persónuafslættinum og með því að skatta inngreiðslur í lífeyrissjóði? Það er svolítið undarlegt þegar við erum að ræða það að draga úr fátækt og erum að tala um að minnka fátækt barna eitthvað — við eigum ekki að vera að tala um það. Eitt barn í fátækt er einu barni of mikið. Við eigum að sjá til þess að ekkert barn sé í fátækt og er hv. þingmaður ekki sammála mér í því?