154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir andsvarið. Það var skýrt og skorinort að hann styður það ekki að útrýma fátækt og kom hvergi með eina einustu tillögu um hvernig hann ætlaði að fara að því, ekki eitt orð, heldur hraunaði eingöngu yfir það sem við erum að reyna að gera. Við erum þó með tillögur um að taka á þessu. Nei, þá er það algerlega ómögulegt. Við erum að leysa það að fólk sé fátækt. Sérstaka uppbótin sem hann er svo hrifinn af og sagði að hefði bjargað skertist krónu á móti krónu. Hverjum lendir það verst á? Konum. Ef einhver reyndi að fá tekjur á þessum tíma, smá tekjur til að bjarga sér, þá var það hirt. Þetta var refsikerfi og þetta er refsikerfi sem þið, fjórflokkurinn, hafið byggt upp, refsikerfi sem refsar fólki ef það reynir að bjarga sér. Og að reyna að verja það í þessum ræðustól að það sé eðlilegt að vera með það og vilja greinilega halda því áfram og þessari sérstöku uppbót, 65 aurum á móti krónu skerðingu og skerðingum á heimilisuppbót — þetta kerfi sem þið byggðuð upp og þið eruð greinilega rosalega stolt af, ætlarðu virkilega að segja mér að þið ætlið að verja þetta kerfi með kjafti og klóm, með því að tala um sterk tilfærslukerfi og sterkt almannatryggingakerfi? Þetta eru bara frasar. Fátæka fólkið þarna úti hefur ekki hugmynd um hvað þið ætlið að gera og þú hefur ekki sagt eitt orð um það hvernig þú ætlar að koma börnum úr fátækt. Skýrðu það fyrir þjóðinni sem er að horfa á hvernig þið í Samfylkingunni ætlið að sjá til þess að ekkert barn búi við fátækt.