154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég er eiginlega bara feimin að stíga hér upp í ræðustól og trufla þetta mjög svo áhugaverða samtal milli Samfylkingarinnar og Flokks fólksins um hvernig eigi að útrýma fátækt. Það kom skýrt fram í máli hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar að þetta væru tveir ólíkir flokkar og það er ágætt að heyra að það eru ólíkir flokkar víða. Ég ætla nú að byrja engu að síður á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa skýrslu sem mér finnst góð og mikilvæg. En ég held að það sé líka full ástæða til að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir skýrslubeiðnina. Ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þetta mál og það er líka mikilvægt að við ræðum það yfirvegað og raunsætt.

Ég ætla að byrja á að nefna, virðulegur forseti, að hér segir í niðurstöðum skýrslunnar að lágtekjuhlutfallið hafi verið 15,3% árið 2000 og var orðið árið 2021, 13,5%, sem sagt það lækkar. Ég er sammála því sem ítrekað er í skýrslunni að fátækt barna eigi að vera sérstakt viðfangsefni enda má ætla að af þeim 13,5% íbúa sem voru undir lágtekjumörkunum voru börn um 19,6%, eða rúmlega 9.000 einstaklingar alls. Ég, eins og ég hygg að allir 63 þingmenn, alveg sama í hvaða flokki þeir eru, vil ekki að neinn alist upp í fátækt á Íslandi. Það vill enginn að börn skorti efnisleg gæði, að börn fari svöng að sofa, eins og stundum er sagt hér í þessum ræðustól. Þá skulum við líka hafa það í huga að það er alveg sama á hvaða mælikvarða er horft eða hvaða skilgreiningar við notum, því það er jú hægt að skilgreina fátækt, efnislegan skort eða lágtekjumörk; þetta eru allt mismunandi leiðir til að reikna það út, Ísland er ávallt að koma vel út úr þeim mælikvörðum, ávallt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa það í huga, því stundum þegar maður situr hér í hliðarsal og heyrir fólk tala í þessum ræðustól þá má halda að veruleikinn sé einhver annar. En þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt að kalla fram svona gögn eins og þessa skýrslu hér til að við séum að tala um þetta út frá staðreyndum.

En að því sögðu ætla ég ekki að gera lítið úr því að hér býr fólk við fátækt. Hér hafa ekki allir jöfn tækifæri eða úr jöfnu að spila. Það er kannski það sem greinir mig frá þeim þingmanni sem talaði hér áður, hv. þm. Jóhanni Friðrik Friðrikssyni þar sem hann ræddi mjög mikið (Gripið fram í.) — fyrirgefið, það var ekki Jóhann Friðrik, það var Jóhann Páll Jóhannsson, afsakið það, þingmaður Samfylkingarinnar. Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson talaði hér áðan fyrir hönd Samfylkingarinnar, jafnaðarflokksins, og talaði þar af leiðandi mjög mikið um jöfnuð. Maður skynjar það á þeirri ræðu að það sé fyrst og fremst markmið þess flokks að jafna tekjur allra sem allra mest og sjá til þess að allir, óháð menntun eða starfi, hafi úr jöfnu að spila.

Þar er ég algjörlega ósammála hv. þingmanni og þingmönnum Samfylkingarinnar. Aftur á móti tel ég og Sjálfstæðisflokkurinn ofboðslega mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við horfum sérstaklega á börnin, því á Íslandi eiga öll börn, alveg sama frá hvaða heimilum þau koma og hver er fjárhagsstaða eða bakgrunnur foreldra eða fjölskyldu þeirra, að hafa jöfn tækifæri. Þess vegna er skólakerfið okkar líklega langmikilvægasta jöfnunartækið og þar búum við svo sannarlega við áskoranir. En það er eiginlega efni í alveg allt aðra ræðu þannig að ég ætla að einbeita mér að því sem hér um ræðir.

Þegar kemur að barnafjölskyldum þá heyrði ég að hæstv. forsætisráðherra nefndi lengingu á fæðingarorlofinu og skort á leikskólaplássum. Ég ætla að taka undir seinni liðinn. Það er ofboðslega mikilvægt fyrir barnafjölskyldur — og ætla að leyfa mér líka að vera femínisti — það er rosalega mikilvægt fyrir konur, þó að það sé líka mikilvægt fyrir feðurna eða aðra fjölskyldumeðlimi, að hafa öruggt leikskólapláss, að geta gengið að því vísu, fá svör og að sveitarfélagið geti staðið við það sem þeir segja og það sem þau lofa. Það er ofboðslega mikilvægt. Ég hélt ræðu hér á eldhúsdegi þar sem ég fór yfir þá uggvænlegu þróun að því miður þá eru íslenskar konur, eða konur hér á landi, að eignast færri og færri börn. Við þurfum einfaldlega fleiri börn til að halda uppi velferðarsamfélaginu sem við viljum byggja upp. Eitt af því er að sjálfsögðu að allt umhverfi í kringum barnafjölskyldur sé með þeim hætti að fólk geti farið aftur út á vinnumarkaðinn og treyst á þessa þjónustu.

Ég ætla samt sem áður að segja varðandi lengingu fæðingarorlofsins, sem mér finnst ekki galin hugmynd, að ég held að næsta skref okkar í þessum málaflokki sé frekar að hækka þakið, því það hefur ekki hækkað í umtalsverðan tíma. Maður heyrir það mjög á barnafjölskyldum að þær veigri sér við þessu — og þetta hefur sérstaklega áhrif á kynin, vegna þess að því miður eru feðurnir oftar með hærri tekjur og maður heyrir að þeir veigri sér við að taka fæðingarorlof vegna þess hversu skerðingarnar eru miklar eða þakið er lágt.

Í þessari skýrslu koma fram mikið af góðum greiningum og þar er verið að fjalla um kostnað vegna fátæktar. Ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að muna það — við erum auðvitað með tölur hérna sem við erum að vinna með og þær eru kannski frá árinu 2021, eitthvað mögulega frá 2022 að rata inn í þetta — að við erum auðvitað á þeim tíma að vextir hafa hækkað mikið og verðbólga mjög mikið. Við vitum að staða heimilanna er að breytast hratt eftir gríðarlega mikið hagvaxtarskeið og mikla lífskjaraaukningu hjá öllum heimilum í landinu og sjáum nú að það brýtur á. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur öll að einblína á efnahagsástandið og við getum sagt stærsta verkefni okkar til að berjast gegn fátækt. Stærsta verkefni okkar fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu er að ná tökum á verðbólgu, það er lykilatriði hér.

En mig langaði að nefna tvo þætti sem fá svolítið rými þegar verið er að tala um kostnað eða samfélagslegan kostnað vegna fátæktar en heilsa og heilbrigðismál eru nefnd hérna sérstaklega. Ég vil hvetja hæstv. forsætisráðherra og einnig heilbrigðisráðherra til að horfa sérstaklega í það sem hér hefur komið fram, og ég hef reyndar séð hæstv. heilbrigðisráðherra bregðast mikið við, og við vitum um þá sáru staðreynd að heilbrigði er tengt tekjum og menntun. Og þrátt fyrir að ég sé ekki í þeim hópi að ég vilji að allir hafi jafnar tekjur þá vil ég að allir hafi jafna möguleika og jöfn tækifæri og þá er það mjög ósanngjarnt, og eitthvað sem við viljum ekki sjá, að við getum séð mjög mikinn mun á heilsu fólks eftir því í hvaða tekjutíund það er eða hvaða menntun er að baki. Þarna vil ég meina að lýðheilsuátök skipti sköpum, fræðsla um gildi holls mataræðis og hreyfingar og aðgengi að þessum þáttum. Þarna spila sveitarfélögin rosalega stóran þátt, hvort sem það er með sundlaugunum sínum eða göngustígunum og hjólreiðastígunum í því að búa til samfélag þar sem hvatt er til þess að fólk lifi heilsusamlegu lífi, njóti heilnæmra matvæla. Þetta skiptir allt sköpum.

Við höfum verið að gera ofboðslega marga góða hluti hér. En verkefnið er engu að síður enn þarna til staðar og það er sérstaklega sláandi að sjá hversu margir virðast neita sér um geðheilbrigðisþjónustu, það er reyndar í öllum tekjuflokkum. Það er eitthvað sem er mikið umhugsunarefni og ég vil beintengja það við lýðheilsuna og mikilvægi þess að við styðjum þá aðila sem hafa verið að veita svona lágþröskuldaþjónustu ýmiss konar, styðjum aukna vitundarvakningu um mikilvægi geðheilbrigðis og aðgerða sem hægt er að gera til að bæta geðheilbrigði okkar. Þetta þurfa ekkert alltaf að vera rosalega dýrar aðgerðir en ég er algerlega sannfærð um að aðgerðir sem lúta að því að bæta geðheilbrigði okkar skila sér alveg umtalsvert til baka og munu skipta okkur öll miklu máli.

Það sem mig langaði mest að ræða hér er annars vegar tengingin við afbrotin en ekki síst þann hóp sem við sjáum kannski hvað mest lægstu tekjurnar í og það eru innflytjendur. Ég hef nú staðið mikið í þessum ræðustól hér á síðustu misserum og rætt útlendingamálin og margoft kallað einmitt á að það sé tími til kominn að við í þessum sal förum meira á dýptina í umræðu um þennan mikilvæga málaflokk. Við erum jú með kerfi sem lýtur að því að taka á móti fólki sem er í mikilli neyð. En stærsta málið okkar, langstærsta málið, er að huga að því hvernig við tökum á móti því fólki sem hingað annaðhvort leitar eftir vernd eða bara kýs að koma og búa með okkur á Íslandi, hvernig við tökum á móti því. Hvernig tökum við á móti þeim í skólakerfinu okkar? Hvernig aðstoðum við þessa einstaklinga við að læra íslensku og taka þátt í samfélaginu okkar?

Þegar kemur hér að umræðunni um fátækt og hvar fólk situr í launaþrepunum, þá sjáum við að útlendingar eða innflytjendur eru oftast í lægsta tekjustiganum. Jú, það er hægt að færa ýmis rök fyrir því. Að einhverju leyti auðvitað er fólk að koma hér, við köllum það farandverkamenn. Við erum með þannig atvinnuvegi sem kalla mjög mikið á starfsfólk á ákveðnum tímum og annað. Ég hef ásamt öðrum félögum mínum í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar einmitt óskað eftir skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra um frekari greiningu á stöðu innflytjenda hér á landi og ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við skoðum þetta af heilum hug.

Eitt af því sem hæstv. háskólaráðherra, eða ráðherra háskólamála, hefur m.a. nefnt er að það er allt of mikið af fólki hér sem vinnur í láglaunastörfum þrátt fyrir að vera með háskólapróf eða vera með einhvers konar menntun frá sínu landi sem gæfi því rétt til að starfa í annars konar störfum sem borga hærri tekjur. Við einfaldlega verðum að leysa úr þessu flækjustigi þannig að við gefum þessu fólki tækifæri til að starfa í samræmi við sína menntun og reynslu. Ef það er svo að við teljum að sú háskólamenntun uppfylli ekki alveg þau skilyrði sem við höfum hér þá þurfum við að búa til brú þannig að fólk geti þá náð í þær aukaeiningar eða þá aukamenntun sem til þarf til að geta gert það.

Ég ætla leyfa mér að segja það, út af því að við lifum á svo ofboðslega viðsjárverðum tímum núna, með stríði í Evrópu og púðurtunnur einhvers staðar víða um heim, að ég held að mesta hættan sem að okkur steðjar í dag séu ungir karlmenn sem búa við ójöfn tækifæri, eru einangraðir og fá ekki tækifæri til að taka þátt í samfélaginu. Fyrirgefið, að ég setji þetta hérna upp í það að kynjagreina þetta en þetta er bara oftar þannig. Við erum að horfa á rosalega öldu afbrota í Svíþjóð. Við erum að sjá ofboðslegt samfélagsmein þar og við verðum að sjá til þess að slíkt gerist ekki hér á Íslandi. Stærsti hlutinn af því held ég að sé skólakerfið okkar, félagslega kerfið okkar, hvernig við tryggjum það að öll börn á Íslandi og öll ungmenni á Íslandi hafi jöfn tækifæri og hvernig við tryggjum að þau séu virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Við eigum að bjóða alla velkomna, þurfum að gefa þeim þessi tækifæri og það held ég að sé stærsta málið og þegar við sjáum þessa þróun þá má gera ráð fyrir því að þær litlu breytingar sem eru hér að verða séu mögulega vegna þess að hingað til lands hefur flutt mjög mikið af fólki og innflytjendur eru orðnir stærri hluti af samfélaginu. Ég er ekki að segja að það sé vont, alls ekki, því okkur hefur vantað fólk á Íslandi, vantað fólk til að halda uppi hagvextinum og taka þátt í atvinnulífinu okkar en við verðum að tryggja það að við sitjum öll við sama borð og höfum sömu tækifæri.

Að þessu sögðu þá ítreka ég aftur þakkir bæði til hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir að biðja um þessa skýrslu. Ég held að þetta sé mikilvægt samtal sem hér hefur átt sér stað og mun eiga sér stað í dag og líka að þetta sé vinna sem við höldum áfram að fylgjast með. Ég hef oft rætt um velsældarvísana sem hæstv. forsætisráðherra vísaði í og ég held að það sé eitt af okkar tækjum einmitt til að fylgjast með því hvernig við afmörkum okkur í ríkisfjármálunum, hvernig hver og einn ráðherra setur sín markmið og þau séu tengd því að hér búum við, byggjum upp velsæld (Forseti hringir.)

Að lokum, virðulegur forseti, við búum að sjálfsögðu í velsældarríki á Íslandi (Forseti hringir.) og við megum aldrei gleyma því að þótt við séum að tala um ákveðin vandamál þá erum við núna eitt af ríkustu samfélögum í Evrópu en vorum áður eitt af þeim fátækustu.