154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir ræðuna. Mér fannst hún að mörgu leyti mjög áhugaverð og ég deili alveg áhyggjum hennar, sérstaklega þegar hún er að ræða innflytjendur sem eru þessi mjög svo viðkvæmi hópur sem er að verða undir, þ.e. er að lifa í mikilli og djúpri fátækt til lengri tíma, og hvað það getur verið hættulegt af því að við vitum alveg að fátæktinni fylgir jaðarsetning. Þegar fólk er jaðarsett og upplifir sig einhvern veginn fyrir utan samfélagið, að það hafi ekki hlutdeild í samfélaginu, þá eru meiri líkur á því að við ýtum fólki út í einhvers konar afbrot eða ofbeldi eða annað sem eru bara mjög skiljanleg og mannleg viðbrögð við mjög erfiðum aðstæðum. Þarna eru ekki bara innflytjendur undir heldur erum við líka að sjá mjög ógnvænlega þróun þegar kemur að yngsta fólkinu, ungum aldurshópum, þ.e. 18–34 ára samkvæmt þessari skýrslu, þar sem fátæktin er að dýpka þar.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir er formaður allsherjar- og menntamálanefndar og við sitjum þar saman og nefndin tók nýlega ákvörðun um að við myndum fara að skoða aukningu ofbeldis í samfélaginu og hvað er að valda því, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt að við reynum að ná utan um og ætti í raun og veru að vera sameiginlegt verkefni líka með velferðarnefnd. En mig langar að spyrja: Af hverju er ekki verið að grípa til róttækra aðgerða núna strax til að reyna að koma í veg fyrir þessa þróun? Af því að þarna er hættuleg þróun og við höfum séð hvert hún hefur leitt okkur í öðrum löndum. Það er búið að vara við þessu líka bara eftir Covid og annað, að Covid hafi dýpkað að miklu leyti mikinn vanda þegar kemur að fjárhagslegum vanda og andlegum vanda og annað og þetta kallar á stórtækar aðgerðir. (Forseti hringir.) Hvað er það sem kemur í veg fyrir það að við förum í róttækar og stórgerðar aðgerðir strax til að stoppa þessa þróun, til að koma í veg fyrir þessa fátækt og jaðarsetningu þessara hópa?