154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:10]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og einmitt áhugaverður vinkill sem við deilum áhuga á. Hv. þm. Halldóra Mogensen hefur einmitt óskað eftir því að við fjöllum sérstaklega um ofbeldi og ofbeldismenningu inni í allsherjar- og menntamálanefnd og við munum gera það í vetur og fá til okkar mismunandi gesti til að einmitt greina þetta svolítið. Mér er aðeins vandi á höndum vegna þess að þróunin sem hv. þingmaður vísar í er meira þróun sem við erum að sjá erlendis en okkur er sagt að hún geti borist mjög hratt og er mögulega farin að koma til okkar með einhverjum hætti. En ef við erum að tengja þetta svo við þessa skýrslu hérna og þróun fátæktar eða hlutfall þeirra sem eru undir meðaltekjum þá er ekki hægt að lesa út úr þessari skýrslu að við eigum að hafa miklar áhyggjur af því per se vegna þess að þróunin er ekki neikvæð. Við verðum alltaf að muna að við erum að koma ofboðslega vel út í öllum mælikvörðum og hér hefur dregið úr þessu lágtekjuhlutfalli, við erum þriðju lægst samkvæmt Gini-stuðlinum. Þannig að að svo mörgu leyti er ástandið á Íslandi mjög gott en ég vil alls ekki að það hljómi þannig að ég hafi samt ekki áhyggjur af því sem er að gerast. Ég hef það vissulega og ég held að ég deili því svo sannarlega með hv. þingmanni. Ég held að við séum að gera mjög margt í því.

Hv. þingmaður nefndi hérna Covid og andlega heilsu og við höfum horft á andlega heilsu ungmenna hraka og ég veit að þetta er líka mikið skoðað á Norðurlöndum. Þar höfum við sérstaklega verið að horfa á ungar stúlkur og séð andlega heilsu ungra stúlkna fara ofboðslega niður á við, sérstaklega eftir Covid, og við vitum ekki hver áhrif samfélagsmiðla og annarra þátta eru. Ég held að það sé verið að gera mjög mikið og er tilbúin að vinna með hv. þingmanni að því að reyna að koma fram með frekari lausnir, hvernig við getum tryggt það að við horfum ekki upp á sama ástand og til að mynda frændur okkar í Svíþjóð eru að horfa á núna.