154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:12]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Hvar á maður að byrja? Við erum að sjá þróun erlendis, já, en við erum líka að sjá vissa þróun hér. Skýrslan sýnir að það er að dýpka og það er aukast fátækt hjá vissum hópum í samfélaginu. Það er talað um innflytjendur, talað um ungt fólk, svo eru líka öryrkjar, það eru einstæðir foreldrar sem hafa færri tækifæri.

Hv. þingmaður talaði um að allir eigi að hafa aðgang að sömu tækifærum og það er ótrúlega fallegt að segja það í ræðu hérna í pontu á Alþingi en orðum verða að fylgja aðgerðir. Þegar við tölum um að við sjáum þetta trend, að við getum séð hvert stefnir bara með því að horfa á það sem er búið að gerast erlendis, þá eigum við að fara í forvarnagírinn og við eigum að fara í stórtækar aðgerðir til að koma í veg fyrir sömu þróun. Við þurfum ekki að bíða eftir því að þróunin verði hérna og svo fara að grípa. Við þurfum ekki alltaf að vera að slökkva elda. Við getum séð fyrir og við getum ákveðið bara: Heyrðu, við viljum bara koma í veg fyrir þetta. Tökum þessa hópa sérstaklega, styrkjum þá, eflum þá, valdeflum, komum í veg fyrir fátækt til þess að koma í veg fyrir þróun í framtíðinni. Það er það sem ég er að spyrja um. Orðum verða að fylgja aðgerðir. Af hverju förum við ekki í aðgerðir?