154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:13]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið og tek undir mikilvægi þess að fara í aðgerðir. Eins og ég sagði hérna áðan þá erum við líka í mörgum aðgerðum og skýrslan sýnir kannski einmitt að við höfum verið með ýmsar aðgerðir. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega einstæða foreldra. Við erum með alls konar millifærslukerfi sem lúta sérstaklega að þeim hópum sem við höfum þekkt í gegnum tíðina og vitum svolítið hvernig virka og vitum hvaða aðferðir virka í því og það eru aðferðir sem við erum að beita. En svo er kannski það sem ég var að nefna, og hv. þingmaður er að inna mig eftir svörum um, þetta með innflytjendur núna þar sem við kannski vitum minna um viðkomandi hóp vegna þess líka að það er mikið flakk á fólki, fólk flytur til og frá landinu og þar er kannski erfiðara að greina nákvæmlega hvaða tæki það eru sem virka. Ég hef þá sannfærðu trú að skólakerfið okkar sé langstærsti þátturinn þarna. Við þurfum að efla skólana okkar og því miður eru áskoranir í skólakerfinu, og nú er ég að tala sérstaklega um grunnskólana, svo miklar að þær tengjast ekki bara þeim sem hingað flytja og eru með allt annað móðurmál heldur erum við líka að glíma við áskoranir varðandi þá sem tala íslensku að fullu. (Forseti hringir.) Þar liggja tækifærin okkar til úrbóta, í að bæta og styrkja skólakerfið okkar.