154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:15]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir fína ræðu, góða ræðu. Þetta er mikilvæg umræða sem hér fer fram í dag og hv. þingmaður kveikti aðeins í mér þegar hún fór að tala um skólakerfið og jöfn tækifæri vegna þess að við deilum þeirri skoðun að það sé mjög brýnt að allir hafi jöfn tækifæri og fái sömu þjónustu. Mig langar kannski að nýta tækifærið og spyrja, ef hún getur farið aðeins dýpra, hvað hún á við. Við þekkjum það nú bæði, fyrrum sveitarstjórnarfólk, að þetta er auðvitað mál sem er þar daglega til umræðu. Það er ýmislegt sem þarna spilar auðvitað inn í. Það eru skólamáltíðirnar, frístundir og allt þetta sem eru oft stór biti fyrir fólk og sérstaklega þá sem eru tekjulægri í okkar samfélagi og fyrir þá sem eru að koma hingað til lands. Það er brýnt að tryggja það að allir hafi jöfn tækifæri eða jafnan aðgang að til að mynda bara þessum litlu þáttum sem okkur þykja sjálfsagðir. Þannig að mig langar aðeins að fá skoðun hv. þingmanns á þessu og hvernig við getum búið til eða byggt betri umgjörð í kringum þessi mál en aðallega langar mig að heyra hvað þingmaðurinn á við þegar hún segir að við verðum að tryggja öllum jöfn tækifæri í skólakerfinu. Í seinna andsvari mínu ætla ég að fá aðeins skoðun hv. þingmanns á íþróttum og tómstundum.