154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:17]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega þetta andsvar. Ég ætla að bíða með frístundir og frístundastyrki þangað til á eftir. En ég ætlaði að segja varðandi skólamáltíðir og frístundir að það er t.d. kerfi sem er til staðar. Við þekkjum það vel hvernig sveitarfélögin styðja á bak við tekjulágar fjölskyldur, t.d. þegar kemur að skólamáltíðum, og það þarf ekkert að gefa öllum börnum fríar skólamáltíðir vegna þess að við getum vel haft kerfi sem styður þá sem á þeim stuðningi þurfa að halda. Aftur á móti þegar við tölum um menntunina — hv. þingmaður og hans heimabær, Hafnarfjörður, á hrós skilið fyrir að hafa tekið á móti ofboðslega miklum fjölda flóttabarna og gert það mjög vel en ég veit að þarna er líka ofboðslega krefjandi verkefni. Ég hef talað fyrir því að við þurfum að vera með sérstaka móttökuskóla þegar kemur að þessum hópi, móttökuskóla þar sem ynni sérhæft starfsfólk sem þekkir þetta sérstaklega og hefði breiða tungumálaþekkingu, þekkingu á áföllum og menningu og öðru þess háttar. Börnin myndu dvelja mislengi í þessum móttökuskóla eftir óskum þeirra eða foreldra þeirra og eftir því hverjar þeirra þarfir eru. Ég held að það myndi létta mjög á almenna skólakerfinu, þ.e. að þegar börnin koma þangað þá séu þau annars vegar með svona smá inngang og hins vegar frekari leiðbeiningar og ráðgjöf til handa bekkjarkennurunum.

Þegar ég tala um jöfn tækifæri þá er verið að gera alveg ofboðslega góða hluti í grunnskólum úti um allt land. Við erum líka að setja töluvert mikla fjármuni í þá, því að í þessum sal þurfum við alltaf svolítið mikið að tala um peninga og einhver átök um það, en það er bara verið að setja mjög mikla peninga í grunnskólana. En því miður er þetta atriði eitt af þeim fáu þar sem Ísland skorar ekki rosalega hátt í alþjóðlegum samanburði. Þarna verðum við að gera eitthvað og við hljótum að hafa tækifæri og tól til þess og ég veit að hæstv. menntamálaráðherra er að vinna í því. Við þurfum að hafa það skýrt til hvers er ætlast af skólunum, mat á gæðunum, meta þá reglulega þannig að þeir hafi tækifæri til að bæta sig. (Forseti hringir.) Og þarna er ég ekki að tala um störf kennara á gólfinu heldur kerfið sjálft, hvernig það styður kennarana í sínum störfum.