154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:19]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott svar. Við reyndum þetta nú í mínum heimabæ og ég er talsmaður þess að skólamáltíðir séu fríar. Ég held að það séu margir sem sjái þarna of mikla peninga en þetta er ódýr aðgerð. Það er þannig. Við þekkjum það að þessi spor fólks að stíga inn í Félagsþjónustu sveitarfélaga eru oft mjög þung og fólk bara á það til að gera það ekki og það auðvitað bitnar verst á þeim börnum sem þurfa á þessu að halda. En aðeins varðandi íþróttir og tómstundir. Spurningin er í raun og veru sambærileg; hvernig getum við byggt betri umgjörð um þetta og hvernig við getum tryggt öllum jöfn tækifæri vegna þess að við sjáum það til að mynda að frístundastyrkir duga ekki til að greiða að fullu fyrir börn í tómstundir og íþróttir (Forseti hringir.) og það eru því miður ekki öll börn sem hafa jöfn tækifæri og geta notið þess að taka þátt í slíku starfi og þá eðlilega leita þau börn annað.