154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég byrja á að þakka hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir skýrsluna og hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir skýrslubeiðnina. Samkvæmt töflu sem birtist á bls. 57 í skýrslunni er heildarkostnaður samfélagsins vegna fátæktar metinn á bilinu 31,65–92 milljarðar kr. eða á bilinu 1–2,8% af landsframleiðslu. Þá er ótalinn sá samfélagslegi kostnaður sem ekki er hægt að meta til fjár, svo sem vegna þeirrar gríðarlegu neikvæðu andlegu og jafnvel líkamlegu afleiðinga sem viðvarandi fátækt hefur á fólk.

Samkvæmt skýrslunni má áætla að það kosti um 16,5 milljarða kr. að lyfta barnafjölskyldum upp úr fátækt. Þess vegna ætla ég að fylgja því eftir og ég ætla að nefna það að Flokkur fólksins var stofnaður árið 2016 þegar UNICEF á Íslandi birti skýrslu sína um stöðu íslenskra barna. UNICEF á Íslandi sagði í þeirri skýrslu að um 9,1% íslenskra barna liðu hér mismikinn skort. Það var í rauninni þvílíkt högg að heyra þetta, að átta sig á því að þrátt fyrir allan fagurgala sem ráðamenn þjóðarinnar hefðu sönglað í áranna rás þá væri raunveruleg staða íslenskra barna 9,1% mismikil fátækt í einu ríkasta samfélagi heims. Það var á þeim tímapunkti sem ég ákvað að stofna Flokk fólksins og ég skyldi gera að mínu hugsjónarefni, það sem eftir er og meðan aldur minn leyfir og geta til að vera hér á hinu háa Alþingi, að berjast gegn fátækt með öllum tiltækum ráðum og útrýma henni helst. En að sjálfsögðu verður það ekki gert nema með góðum vilja fólksins sem stýrir landinu.

Hér hafa hv. þingmenn á undan mér talað um hvað það er mikilvægt fyrir börnin að geta sinnt tómstundum, geta fengið að taka þátt í félagslegu starfi skólanna, geta með öðrum orðum fengið að vera með. Þúsundir barna geta ekki verið með vegna fátæktar foreldra sinna. Þetta er mannanna verk. Þetta er ákvörðun sem er tekin vísvitandi, að halda þessum fjölskyldum og þessu fólki í fátækt. Við þyrftum ekki að gera það og okkur er í lófa lagið að byrja á þessum 16,5 milljörðum kr. árlega til þess a.m.k. að hífa barnafjölskyldur upp fyrir lægsta fátæktarþröskuldinn. Þetta eru fjölskyldur í sárri fátækt.

Það kom líka í ljós núna að hjálparstofnun kirkjunnar gaf út yfirlýsingu um það að það væri vaxandi fátækt í landinu. Það væri vaxandi ákall eftir aðstoð og sá hópur sem ætti sér engrar undankomu auðið væru öryrkjar, þeir sem eru á berstrípuðum almannatryggingabótum. Og hvað skyldi nú ríkisstjórnin og stjórnvöld undanfarinna kjörtímabila og undanfarinna ára gera fyrir þetta fólk til að raunverulega aðstoða það að koma sér út úr þeirri fátæktargildru? Ekki nokkurn skapaðan hræranlegan hlut. Það er settur einn og einn plástur hingað og þangað og þetta er klætt í einhvern fallegan kjól sem skilar sér í rauninni takmarkað til örfárra, og jafnvel ekki neitt til annarra.

Flokkur fólksins hefur mælt hér ítrekað fyrir frumvörpum um að gefa öryrkjum tækifæri á því að bjarga sér sjálf og fara út á vinnumarkaðinn án skerðinga í ákveðinn tíma. Við höfum gögn frá öðrum löndum sem við berum okkur saman við þar sem berlega kemur í ljós, t.d. í Svíþjóð, að þeir öryrkjar sem nýttu sér þetta tækifæri og treystu sér til að leita fyrir sér á vinnumarkaði skiluðu sér í 32% tilvika ekki aftur inn í almannatryggingakerfi landsins. Ég velti fyrir mér hvaða óútskýranlegi máttur það er sem gerir það að verkum að stjórnvöld, sem eru að tala um að allir eigi að fá jöfn tækifæri og stjórnvöld sem eru að tala um og viðurkenna að það sé ákveðinn hópur sem á um sárt að binda — ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að stíga út fyrir rammann. Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að gefa þessu fólki kost á því að bjarga sér sjálft. Hvers vegna er verið að skerða fólk í sárri fátækt og koma í veg fyrir það að það geti reynt fyrir sér á vinnumarkaði? Hér er oft látið líta út fyrir að með því að skerða ekki fólk á vinnumarkaði en greiða því almannatryggingar þá værum við að mismuna, þá værum við að mismuna með því að þeir sem væru að vinna væru enn þá að fá almannatryggingagreiðslur en í raun og veru væru einnig á vinnumarkaði. Að sjálfsögðu er þak á þessu. Að sjálfsögðu hefur ríkisstjórnin löngu sett á sig belti og axlabönd til að koma í veg fyrir að nokkur sem þarf að nýta sér þetta kerfi geti hagnast á því og að sjálfsögðu munu einstaklingarnir greiða tekjuskatta af sínum launum. Það liggur á borðinu fyrir alla sem vilja sjá að þetta er hagur fyrir alla, allt samfélagið. Þetta er hagur fyrir okkur öll, hvað þá ef þeir sem treystu sér til að reyna fyrir sér á vinnumarkaði myndu skila sömu niðurstöðu og við sjáum bæði í Hollandi og í Svíþjóð sem ég nefndi hér áðan sérstaklega, 32% öryrkja skiluðu sér ekki aftur inn í almannatryggingakerfið.

Það var furðulegt að hlusta á að verið væri að fórna höndum yfir því hvað það væri mikið nýgengi örorku hérna þegar ég var að koma hérna inn á þingið fyrst, alveg ótrúlegt nýgengi örorku, en að það sé verið að gera eitthvað í því að koma í veg fyrir þessa áframhaldandi þróun, nei, ég ætla ekki að segja að svo sé. Ég ætla ekki að samþykkja það að þær breytingar sem er verið að básúna hér um, sem ég veit ekki hvenær koma til framkvæmda en er áætlað að verði í vor, breytingar á almannatryggingakerfinu hvað öryrkjana varðar, ég ætla ekki að leyfa mér að vona það einu sinni að það sé til hagsbóta fyrir öryrkja vegna þess að þetta er hið svokallaða starfsgetumat. Við höfum fengið að sjá það svart á hvítu, bæði frá Danmörku og Bretlandi, hvaða áhrif það hefur haft á þennan þjóðfélagshóp. Ég veit að meðal öryrkja er mikill kvíði fyrir því hvað þetta muni raunverulega leiða af sér fyrir þá. Er ég 70% öryrki? Á ég sem sagt að vinna 30%? Munu þá almannatryggingarnar greiða mér bara 70% af þessari fátækt sem ég er hnepptur í í þeirra skjóli? Mun ég þá kannski bara fá 70% af almannatryggingunum af því að ég á að vera bær um það að geta farið út og unnið 30%? Þetta eru spurningarnar og eðlilega er spurningin líka: Hvar get ég fengið þessa vinnu, hver er búinn að undirbúa garðinn? Hvar á ég að fá vinnu? Hver vill mig í vinnu, 30% öryrkja? Auðvitað eru þetta spurningar sem á að svara og stjórnvöld eru skyldug til að svara, því þetta eru áhyggjurnar sem þessi sárfátækasti þjóðfélagshópur Íslands er að spyrja sig og býr við. Það er okkur til ævarandi skammar að tala um að setja hluti áfram í nefnd og spjall og spjall og nefnd þegar það er svart á hvítu hver raunveruleg staða þúsunda fjölskyldna í landinu er: Sárafátækt. Þau fá ekkert fleiri kartöflur á diskinn eða fleiri bita í pottinn þó svo að við séum að tala um það hvernig raunveruleg staða er. Það eina sem getur bætt þeirra stöðu er að gera eitthvað róttækt í málinu. Það er að stíga inn í málið og ganga hreint til verks.

Það var athyglisvert að jafnaðarmannaflokkur Íslands, hin frábæra Samfylking, sem hefur nú gjarnan viljað skrifa greinar upp úr stefnu Flokks fólksins í hinum ýmsu málum, skuli loksins vera skriðinn upp úr holunni og segi náttúrlega einfaldlega að þau gefi lítið fyrir okkar málatilbúnað og okkar málefni hvað lýtur að því að útrýma fátækt og hvað lýtur að því að koma á raunverulegum jöfnuði og hjálp fyrir fátækasta fólkið í landinu. Það var athyglisvert. Það var athyglisvert að heyra hér að nei, þau eru ekki með því að laga þetta almannatryggingakerfi. Nei, þau eru ekki með 400.000 kr. lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust. Nei, þau eru ekki til í að færa persónuafsláttinn frá hinum ríku til hinna fátæku. Nei, þau eru ekki til í það. Þetta er grímulaus jafnaðarmannastefna þeirra. Það er þó ágætt að það er þá komið upp á yfirborðið loksins, enda líka einn af fjórflokknum. Í því kerfi sem við erum að bögglast í dag og hefur fengið að vera við lýði er það gjörsamlega á þeirra ábyrgð eins og annarra sem tilheyra þessum fjórflokki. Þau hafa haft sín tækifæri eins og allir þessir stjórnmálaflokkar hér. Þau hafa sannarlega haft sín tækifæri til þess að breyta stöðunni og gera öllum í landinu kleift að búa hér með þokkalegri sæmd.

Hér er fátækt fólk ekki að biðja um eitthvað umfram það sem lýtur að nauðþurftum. Ég hef aldrei hitt einn einasta einstakling sem er haldið hér í sárri fátækt sem biður um það að fá að skreppa til Tene einu sinni á ári og sóla á sér tærnar, aldrei. Þau biðja um að hafa fæði, klæði, húsnæði og hafa ráð á því að komast í heilbrigðisþjónustu. Þetta eru kröfurnar sem fátækasta fólk landsins hefur. Hvernig er þeim svarað? Með einu á kjaftinn, virðulegi forseti. Þannig eru svörin: Halt þú áfram að hokra því að hér er enginn sem ætlar að koma í veg fyrir það. Skilaboðin eru skýr og að hugsa sér að það skuli bitna á bláfátækum börnum okkar, að hugsa sér að geta horft upp á að börn getið ekki farið í tónlistarnám, að börn geti ekki stundað íþróttir, að börn geti ekki tekið þátt í samfélaginu út af fátækt foreldra. Ég fyrirlít svona stjórnmál, ég fyrirlít þau af öllu hjarta og þau eru til ævarandi skammar fyrir land og þjóð.