154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir beiðni um þessa skýrslu og forsætisráðherra fyrir að koma og ræða hana. Ég vil spyrja hv. þm. Halldóru Mogensen, því að mér finnst þessi borgaralaunapæling athyglisverð, hvort hún geti skýrt fyrir mér, því að ég hef aldrei skilið það, hvort hún eigi að ná til allra, jafnvel þeirra sem hafa meira en 15 millj. kr. í mánaðarlaun. Eru einhver takmörk á þessu? Í því samhengi vildi ég líka fá svar frá henni vegna þess að nú höfum við í Flokki fólksins lagt fram frumvarp um 400 þúsunda kr. skatta- og skerðingarlausa lágmarksframfærslu. Píratar eru ekki á því. Hvers vegna ekki? Finnst henni það röng nálgun? Við förum líka fram á að inngreiðslur í lífeyrissjóð verði skattaðar vegna þess að lífeyrissjóðurinn er eini aðilinn sem fær að taka skattgreiðslur og gambla með á markaði innan lands sem utan. Við þekkjum það að hundraða milljarða króna skatttekjur töpuðust vegna bankahrunsins. Er hún ekki sammála mér í því að það er mun betra að hafa þetta í hendi og nýta núna í þessari ótrúlegu þörf sem við stöndum frammi fyrir og í viðleitni okkar til að útrýma fátækt? Við getum þetta. Við erum forrík þjóð, það er búið að koma hérna fram aftur og aftur. Þess vegna getur maður ekki skilið þessa þráhyggju. Kannski er hún vegna þess að fjórflokkurinn hefur byggt upp þetta kerfi og vill viðhalda því einhvern veginn og bútasauma það meira. Það er eiginlega eina skýringin sem mér dettur í hug. Ég spyr hv. þingmann: Er hún sammála þessari nálgun og því að gera eitthvað í þessa átt?