154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir andsvarið. Hún svaraði ekki þessu um 400.000 kr. Hún gerir það kannski næst. Ég get ekki annað en verið innilega sammála henni. Þegar hún nefndi persónuafsláttinn tók hjartað eitt aukaslag. Við erum með frumvarp um það að láta persónuafslátt fjara út. Fólk sem er með 3, 4 eða 15 milljónir króna í mánaðarlaun þarf ekkert á persónuafslætti að halda. Þetta er svo lítið brot af því. Það er auðvitað þrælsniðug hugmynd að borga hann út ef fólk nýtir hann ekki allan. Við erum með svo furðuleg kerfi að persónuafsláttur í dag er 59.600 kr. en á að fara núna eftir boðaða hækkun hjá ríkisstjórninni í 64.500 kr. Hann ætti, ef hann hefði verið uppreiknaður samkvæmt vísitölu, að vera 90.000 kr. í dag. Það eru svona gildrur sem verið er að búa til í öllu kerfinu. Þetta eru gildrur sem bitna mest á þeim sem minnst hafa. Ég get ekki annað en verið sammála þingmanninum um það að börn og konur eru þau sem fara verst út úr þessu. Ég verð að segja að það er svolítið undarlegt að við skulum ekki vera búin að átta okkur á, gera athuganir á og spá í hvaða afleiðingar fátækt hefur, að konur með börn bíði í röðum eftir mat. Maður getur ekki skilið að við höfum þjóðfélagið þannig að við leyfum þetta.

Ég var á ferðalagi um Austurland og Norðurland. Þar kom fram að beinar matargjafir hafi stóraukist á Akureyri. Ég hef orðið var við það hér líka. Þess vegna eigum við að leysa þetta. Ég spyr aftur hvað henni finnist um það að við hefðum 400.000 kr. skatta- og skerðingarlausar, enginn fengi minna, og að við nýttum persónuafslátt og lífeyrissjóði til að gera það.