154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir hans ræðu. Hann kom inn á Evrópusambandið og að krónan væri einhver bölvaldur í fátæktinni, það kostaði 300 milljarða að vera með íslensku krónuna en fátæktin kostar okkur — var ekki hærri talan 92 milljarðar? En getur hann upplýst mig um hvað það myndi kosta fyrir Ísland að vera í Evrópusambandinu? Hvað þyrfti Ísland að borga ef við værum í Evrópusambandinu? Það væri gaman að vita það. En svo er hitt: Telur hann að ef við værum komin inn í Evrópusambandið myndi fátækt fólk hafa það betra á Íslandi, þ.e. innan Evrópusambandsins heldur en ekki? Ég spyr vegna þess að ég var í samtökum sem hétu Evrópusamtök gegn fátækt og félagslegri einangrun eða The European Anti-Poverty Network á ensku. Ég fór í ferð til Brussel og kynntist þar fátækt í Evrópusambandinu. Maður verður bara að segja alveg eins og er að fátæktin hér á Íslandi er sem betur fer ekki nálægt því eins og hún er verst í Evrópu, því versta sem ég hef séð þar. Það var skelfilegt. Það er skelfilegt að horfa upp á fólk sem er kannski búið missa handleggi, útlimi, eiga engan samastað, ekki einu sinni húsaskjól. Það viljum við ekki. En það er sem sagt spurningin: Hvað kostar að vera í Evrópusambandinu og telur hv. þingmaður að fátækt fólk á Íslandi muni hafa .það mun betra bara við það að fara í Evrópusambandið?