154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:37]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og að efna til skoðanaskipta við mig um þetta. Já, ég nefndi það í minni ræðu að áætlaður beinn kostnaður, og þetta er reiknað út frá vaxtamun á milli krónu og evru, er um 300 milljarðar kr. á ári. Við sjáum vaxtagjöld ríkissjóðs, við sjáum að um 100 milljarðar falla á heimilin á hverju ári vegna þessa og annað eins til fyrirtækjanna þannig að þarna er eftir ýmsu að slægjast. Við verðum að vara okkur á því þegar við erum að ræða um þessi mál að líta ekki á Evrópusambandið þannig að lífskjör í öllum ríkjum innan sambandsins séu eins. Það er ekki þannig. Lífskjör sunnar í álfunni og austar í álfunni eru t.d. með öðrum hætti heldur en við getum sagt í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku, Þýskalandi og fleiri ríkjum. Við Íslendingar erum þjóð sem er mjög rík af auðlindum. Við erum ekki að fara að missa forræði á okkar hagstjórn eða því hvernig við byggjum okkar kerfi eða hvernig við nýtum þau verðmæti sem hér verða til í samfélaginu þannig að sjálfdæmi okkar um það að byggja upp samfélagið út frá þeim verðmætum sem við erum að skapa þar er ekkert að hverfa þótt við göngum inn í Evrópusambandið. En hugsum bara um þessa tölu, 300 milljarðar á ári. Hver er kostnaðurinn á móti? Hér held ég að skilvirkasta leiðin til að komast að því væri einfaldlega að fara í aðildarviðræður og sjá hvað okkur býðst. Það er það sem við höfum verið að leggja til, minn flokkur, að við höldum áfram þeim aðildarviðræðum sem Ísland hóf á sínum tíma og komumst að því í eitt skipti fyrir öll hvers konar kjör okkur standa til boða. Og auðvitað er þetta svo margslungið og flókið mál og seytlar niður í öll lög samfélagsins að sums staðar er örugglega verra að vera inni í Evrópusambandinu en annars staðar betra. En ég er alveg sannfærður um það að heildaráhrifin fyrir samfélagið eru jákvæð og það þýðir almennt betri lífskjör en eru í dag. Og áfram höfum við sjálfdæmi um það hvernig við síðan skiptum kökunni.