154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir andsvarið. Mér hugnast það ekki, ég verð bara að segja alveg eins og er, að þurfa að fara í aðildarviðræður við sambandið til þess að komast að því hvað við þurfum að borga. Ég held að það hljóti að vera hægt að finna það út vegna þess að við yrðum ekki fyrsta þjóðin sem væri að hugsa um að fara þarna inn og það hlýtur að koma í ljós, það hlýtur að vera einhver ákveðin tala miðuð við höfðatölu eða landsframleiðslu. Við erum rík þjóð þannig að ég get ekki annað en reiknað með því að við þyrftum að borga alveg helling til að fara þarna inn. Það er það sem kannski oft stendur á, við fáum ekki þau svör. Jú, Evrópusambandið er margar þjóðir en því miður, ég verð bara að segja alveg eins og er, bæði út frá Norðurlandaráði og þeim borgum sem ég hef verið að fara til, að ástandið, fátæktin, er skelfilegt á þessum stöðum. Umræðan í velferðarnefnd Norðurlandaráðs snýst gífurlega mikið um fátækt og hvernig staða barna og sérstaklega innflytjenda er og þar gætum við verið sammála vegna þess að hv. þingmaður kom t.d. inn á aldraða og þar erum við búin að búa til alveg stórmerkilegt kerfi. Við tókum, eins og ég hef komið áður að í ræðum, lægsta samnefnara ellilífeyris og settum þá sem hafa lítil réttindi á Íslandi, hvort sem það eru Íslendingar eða erlendir aðilar, eldri borgarar, inn í þetta kerfi, þennan lægsta samnefnara. En okkur tókst á einhvern undarlegan hátt að setja þá 10% neðar en lægsta. Það lægsta er fátækt, ég tel það vera undir fátæktarmörkum, en við fórum 10% neðar og að hugsa sér, við létum krónu á móti krónu skerðingar ofan á það ef fólk skyldi nú ætla að reyna að koma sér upp fyrir þessi 10%. Hvað finnst honum um það? Styður hann ekki það sem Flokkur fólksins er að berjast fyrir, að breyta því?