154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:01]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er kannski til lítils að horfa aftur í tímann vegna þess sem þá var gert. Þetta voru erfiðir tímar. Eflaust hefði margt mátt fara öðruvísi en þá var að gert. En það sem við þurfum kannski að fókusa dálítið á núna er þetta: Hvernig viljum við reyna að ná fram betri kjörum og aðstæðum fyrir þennan hóp sem við erum hér að fjalla um? Ég held að við séum að reyna að takast á við það og við höfum auðvitað gert það með margvíslegum hætti og höldum því áfram. Ég held að við hv. þingmaður séum alveg sammála að mjög mörgu leyti um margt sem að þessu lýtur.

Já, ég kom einmitt inn á þetta, að vera fátækur; að búa ekki við öryggi, búa ekki við fjárhagslegt öryggi, ekki við húsnæðisöryggi. Það veldur auðvitað kvíða, það veldur þunglyndi og það veldur því að fólk festist á einhverjum tilteknum stað, á erfiðara með að komast út úr því og öðlast gott líf. Það er okkar stóra verkefni þegar við erum að tala um þessa skýrslu og það sem hér er undir, þ.e. að ná til þessa hóps. Þar eru börnin, finnst mér, nr. 1, 2 og 3, vegna þess að þar erum við í rauninni að spara okkur alls konar vanlíðan og raskanir og guð má vita hvað til framtíðar, ekki bara peninga í öllu okkar kerfi heldur líka að við náum sterkari einstaklingum til að byggja landið okkar ef við náum að taka utan um þau.

Þetta með lyf og lækningar. Jú, þetta er mörgum erfitt. Ég átta mig á því að það er alls ekki einfalt mál að leysa úr því að fólk nýtur niðurgreiðslu á sumum lyfjum en önnur eru ekki niðurgreidd og þar af leiðandi getur þetta verið fjandanum þyngra þegar nýtt tímabil byrjar og alls ekki endilega víst að það hitti á réttan tíma í mánuðinum þannig að fólk beinlínis hafi ráð á því. Það er snúið mál að eiga við.