154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir hennar andsvar. Ég held að við séum sammála að mörgu leyti því að þetta kerfi er svolítið furðulegt. Við erum einhvern veginn alltaf að bútasauma meira og meira. Er hún ekki sammála því að það sé kominn tími til að stöðva það hreinlega? Nú er verið að tala um og það er í vinnslu að endurskoða örorkukerfið. Hefði ekki verið nær að endurskoða kerfið í heild sinni, almannatryggingakerfið, bara algjörlega og klára það? Er það ekki eitthvað sem við ættum að geta sameinast um, að klára það bara á stuttum tíma vegna þess að það þarf að gera það? Þetta er óskiljanlegt kerfi fyrir flesta og meira að segja fyrir sérfræðinga í Tryggingastofnun vegna þess að oft er það bara einhver tölva sem segir til um hvort það er rétt eða rangt sem viðkomandi er að spyrja um.

Síðan kom hv. þingmaður inn á húsnæði. Ég hef fengið spurningu frá öryrkja sem var að missa húsnæðið sitt og var að reyna að ná sér í annað húsnæði en þá þurfti hann að vera með 750.000 kr. tryggingu. Hann átti það auðvitað ekki til. Á sama tíma var annar að missa húsnæði sitt. Hann var með 260.000 kr. leigu, hún hækkaði í 320.000 kr. og viðkomandi er með 310.000 kr. útborgað. Það sýnir hvers lags ófremdarástand er hérna og við vitum að það hlýtur að vera lágmarkið hérna á Íslandi að það sé húsnæði fyrir fólk, það er lágmarkið. Auðvitað á það að vera sjálfsagt og síðan fæði, klæði, húsnæði, það á að vera sjálfsagður hlutur. Þess vegna segi ég, eins og við höfum lagt til, að það þarf 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Við erum ekki á móti skerðingum. Við viljum bara að við byrjum ekki að skerða fyrr en fólk er komið upp úr fátækt.