154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni. Við höfum einmitt verið að bútasauma kerfið. Þetta er svona eins og með sjávarútvegskerfið, það er verið að bútasauma það endalaust. Nú er sannarlega verið að taka þennan erfiða pakka, bútasaumspakka, sem örorkulífeyriskerfið hefur verið og reyna að lagfæra það og einfalda til muna. Ég held og ég vona það sannarlega að við náum saman um það af því að það hvarflar ekki að mér að það verði ekki ágreiningur um það. Það verður alltaf ágreiningur um eitthvað. Ef það verður ekki ágreiningur um peninga þá verður ágreiningur um eitthvað annað. En ég vona sannarlega að við náum að klára það vegna þess að þrátt fyrir allt þá held ég að ef við horfum bara raunsætt á það þá skipti það máli. Við verðum að velja okkur barátturnar og við eigum að velja okkur, að mínu mati, það að koma einhverju áfram til að það létti á. Og síðan verðum við að taka næstu slagi, því að við klárum í sjálfu sér, held ég, aldrei þessi mál.

Ríkisstjórnin hefur auðvitað verið að efla almenna íbúðakerfið eins og við vitum. Það er búið að úthluta nú þegar til 3.000 íbúða og við erum að halda áfram í því efni. Við höfum líka, eins og ég sagði áðan, verið að styðja við leigjendur en auðvitað getum við alltaf sagt: Betur má ef duga skal. En það eru líka vandkvæðin sem við stöndum frammi fyrir þegar einkaaðilar eiga hér bara heilu og hálfu hverfin og kjósa að byggja ekki vegna þess að það hentar þeim betur að gera það ekki. Þessu verða sveitarfélögin líka aðeins að átta sig á. Ég veit að þetta er snúið þegar sveitarfélögin vantar fjármuni, að selja ekki lóðirnar til hæstbjóðanda. En þetta bítur í skottið á sér. Þetta þýðir það að þessir aðilar stýra ferðinni og ráða þar af leiðandi dálítið markaðsverði bæði í sölu — það er ekki orðið eðlilegt ef það kostar 25 milljónir bara að komast af stað áður en þú ferð yfir höfuð að byrja að kaupa þér eignina. Þannig að við getum gert eitt og annað, eins og ég nefndi hér áðan varðandi Airbnb, en margt annað höfum við ekki alveg í hendi okkar, annað en það sem við höfum verið að reyna að gera, þ.e. ríkisstjórnin.