154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:08]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu. Ég veit satt best að segja ekki um þarfara umræðuefni en fátækt og misskiptingu auðs og þær aðferðir og leiðir sem við ætlum að nota til að berjast á móti því. Við vitum að misskiptingin eykst stöðugt úti um allan heim, líka hér á landi og það er sérstaklega áberandi í umræðum sem við eigum um efnahagsmál þessa dagana þegar ríkisstjórninni er tíðrætt um aukningu kaupmáttar heimilanna sem er einhvers konar heilbrigðisvottorð um samfélagslegt réttlæti í sanngjarnri kjaraskiptingu í þessu þjóðfélagi. Þessi skýrsla sýnir fram á annað. Við sjáum það svart á hvítu að fátækt er ekki bara til staðar því það eru líka fáar markvissar aðgerðir til staðar í íslensku velferðarkerfi sem miða að því að úthýsa henni endanlega og ráðast að rót vandans. Þau úrræði sem eru þó til staðar eru, þrátt fyrir góðan vilja, í lok dags nokkuð máttlítil. Þau fela í sér plástra hér og þar, passlegt fjármagn hingað og þangað til þess að bjarga málunum til skamms tíma. Við sjáum þetta reglulega gerast í heilbrigðismálunum, við sjáum þetta í löggæslunni og mikilvægum innviðum í samfélaginu; skammtímafjármögnun og ávísanir frá ráðherrum sem rétt svo stoppa í götin. Þessar aðgerðir þurrkast út, ekki síst þegar aðhaldskröfur í efstu stjórnsýslu koma til framkvæmda í óðaverðbólgu.

Við þurfum framtíðarsýn, ekki bara viðbragð hér og þar. Ég leyfi mér að fullyrða að þingheimur sé innbyrðis sammála um að fátækt sé óæskileg, hún sé til staðar í íslensku þjóðfélagi eins og öðrum um allan heim og að það þurfi að vinna gegn henni. Við erum sammála. En við erum hins vegar ekki kannski á einu máli um það hvort það eigi að vera sérstakt forgangsverkefni og svo erum við alls ekki sammála um það hvaða leiðir við viljum fara. Við viljum ekki bara taka málið föstum tökum í Samfylkingunni heldur höfum við markvissa sýn í málaflokknum, í málefnum barnafólks, og við höfum svo sannarlega útfært leiðirnar sem við viljum fara til að ná því takmarki því þetta eru breiðu velferðarlínurnar. Við höfnum einstaklingshyggju ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og við höfum bent á að tugir milljarða hafa verið teknir úr velferðarsamfélaginu til þess að borga fyrir skattalækkanir. Tekjuhæstu og eignamestu hóparnir taka sífellt til sín stærri skerf af þeim verðmætum sem verða til í samfélaginu, verðmætum sem láglaunahópar hafa sannarlega skapað.

Það er tæpt ár síðan kjarapakki Samfylkingarinnar var lagður fram. Hann hefur í stuttu máli leitt til þess að fallið var frá gjaldahækkunum á almenning. Við lögðum á sínum tíma til hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 22% upp í 25%, tvöföldun stofnframlaga til íbúðauppbyggingar í stað þess að þau yrðu helminguð niður samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar. Það var lagt til að húsnæðisstuðningur til leigjenda og vaxtabætur myndu hækka til samræmis við hækkun á húsnæðisverði og ég gæti haldið áfram. Við höfum líka kallað ítrekað eftir tímabundinni leigubremsu að erlendri fyrirmynd en það þarf að vera framtíðarsýn.

Það kemur ekki á óvart að ein meginniðurstaða skýrslunnar er sú að börn einstæðra foreldra, innflytjenda og öryrkja eru í aukinni hættu á að búa við fátækt. Við tökum undir með skýrsluhöfundum, það er rík ástæða til að huga sérstaklega að þessum hópum. Samfylkingin hefur gert þá mjög eðlilegu kröfu að barnabætur eigi að ná til fleiri tekjuhópa og verða veigameira stuðningstæki í íslensku samfélagi. Þessi ríkisstjórn hefur stært sig af því að hafa hækkað skerðingarmörk og fjárhæðina. Hins vegar hefur það raungerst að þessi sömu framlög hafa fuðrað upp í verðbólgu og meintar umbætur hafa falið í sér enn einn skammtímabjörgunarleiðangurinn. Eins og formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, hefur bent á verða útgreiddar barnabætur á næsta ári í rauninni sögulega lágar. Sé horft til hlutfalls af landsframleiðslu verða barnabætur aldrei lægri en núna á þessari öld.

Hækkun barnabóta til lág- og meðaltekjufólks er og verður gífurlega áhrifarík aðferð til þess að draga úr misskiptingu á milli barna og auðveldar foreldrum að standa straum af útgjöldum, t.d. vegna tómstundaiðkunar sem hefur oft verið nefnd hér. Við vitum að þessir hópar hafa ekki sömu tækifæri til þessarar iðju. Þetta er jafnaðarstefnan í hnotskurn; að berjast gegn því að fjárhagsstaða foreldra komi í veg fyrir að börn og ungmenni njóti sjálfsagðra mannréttinda eins og heilbrigðisþjónustu, menntunar og tómstundaiðkunar. Þetta snýst nefnilega ekki bara um að skrifa ávísanir hér. Við verðum að tryggja að allir eigi aðgöngumiða að sama samfélaginu og að það verði ekki til ósýnilegir veggir. Þetta er á mannamáli auðvitað bara stéttaskipting og ef við viljum hana ekki þá verður allt sem við fáumst við að stuðla að félagslegri samþættingu. Sumir stjórnmálaflokkar vita ekki einu sinni hvað það er og við munum ekki finna þetta hugtak á stefnuskrá þeirra.

Það er síðan mjög þýðingarmikið fyrir þessa umræðu að huga að bakslaginu sem hefur oft verið nefnt hér. Það á sér alls konar birtingarmyndir. Við sjáum það beinast gegn hinsegin samfélaginu en ég ætla að ávarpa hér annað bakslag. Við jafnaðarmenn á Alþingi ætlum ekki að sofna á verðinum. Ég er að tala um eitt okkar allra mikilvægasta jöfnunartæki sem hefur verið nefnt hér og verður að nefnast aftur, sem eru leikskólar. Staðan er grafalvarleg. Við sjáum skelfilega þróun í næststærsta sveitarfélagi landsins, sjáum Kópavogsbæ, minn fæðingar- og heimabæ, stíga afdrifarík skref í átt að því að veikja skólastigið svo um munar. Ég væri að taka vægt til orða ef ég segði að ég hefði áhyggjur af stöðunni því fleiri sveitarfélög hafa fylgt á eftir og ég nefni uggvænlega þróun á Akureyri í því sambandi.

Í stuttu máli felast aðgerðirnar í því að gera lítinn hluta leikskóladagsins gjaldfrjálsan ef kalla má. Þær stundir sem foreldrar þurfa á að halda til að geta stundað nám eða unnið fullan vinnudag munu nú hlaupa á tugum þúsunda. Fjölskylda sem þarf að vinna átta tíma og þarf að nýta sér níu daga á leikskóla þarf að greiða hartnær 80.000 kr. fyrir eitt barn. Þetta er einhvers konar átak til að hækka kostnaðarhlutdeild foreldra sem lýsir líka vanþekkingu á því til hvers leikskólinn er. Hann er jöfnunartæki. Að taka leikskólann af börnum eins og við þekkjum hann í dag leiðir ekki til framfara eða úrbóta. Það leiðir til niðurskurðar og þjónustuskerðingar og sýnir ekki bara virðingarleysi gagnvart illa launuðum kvennastörfum og leikskólum sem slíkum, hér búum við líka til fleiri veggi. Innflytjendur, hópur sem er 16% landsmanna en telur þriðjung þeirra sem eru undir fátæktarmörkum samkvæmt tölfræði skýrslunnar, munu eflaust draga sig í auknum mæli út úr leikskólunum vegna þess að það hreinlega svarar ekki kostnaði.

Virðulegi forseti. Hvar eiga þessi börn að læra íslensku? Hvar eiga þau að kynnast öðrum börnum og fá menntun sem er sambærileg því gæðastarfi sem unnið er á leikskólum, sem er á heimsmælikvarða hér á landi? Á leikskólunum eru þaulmenntaðir og reynslumiklir kennarar sem geta gripið börn sem sæta vanrækslu. Þeir eru griðastaður. Leikskólar eru griðastaður íslenskra barna og allra barna.

Hæstv. forsætisráðherra og fleiri komu hér áðan í andsvari inn á mikilvægi skólamáltíða. Mörg börn hafa ekki aðgang að hollum mat utan skólastofnana. Það er alveg morgunljóst að þetta mun auðvitað koma langverst við þau sem eiga ekki bakland til að vera með börnin sín minna en sex klukkustundir á dag á leikskóla. Þetta er gríðarlega stórt kjaramál fyrir okkar fátækustu hópa. Þessar aðgerðir munu breikka bilið milli efnaðra og fátækra, ekki bara fjárhagslegt bil heldur líka félagslegt.

Það hefur verið nefnt hér hvort það sé kominn tími til að lögbinda leikskólastigið. Ég svo sannarlega tilbúin að taka þátt í því samtali og ég vil taka undir með hæstv. forsætisráðherra eins og komið var inn á áðan, hér dugar skammt að lengja fæðingarorlofið eitt og sér. Við þurfum að brúa bilið og endurnýja samfélagssáttmálann um að öll börn eigi rétt á leikskólavist. Þetta er þrekvirki íslenskra femínista og við getum ekki látið hvatvísa síðkapítalista sem velja að sjá ekki raunverulegan auð þessara stofnana brjóta það niður. Þetta er ekki hagsmunamál millistéttarfemínista. Þetta er risastórt menntamál og hagsmunamál fyrir okkar fátækustu börn.

Herra forseti. Í skýrslunni er fjallað sérstaklega um námsmenn og orðað af höfundum þannig að það sé ekki ástæða til að líta á lágar tekjur námsmanna sem fátækt í eiginlegum skilningi, þau séu að verða sér úti um þekkingu sem hefur áhrif til framtíðar og getur tryggt þeim betri lífskjör. Ég leyfi mér að ganga svo langt að vera aðeins að hluta sammála skýrsluhöfundum að því leyti. Ég hef nefnilega talsverðar áhyggjur af núverandi stöðu námsmanna, ekki bara þeirra sem hafa börn á framfæri sínu. Á síðustu dögum hefur Landssamband íslenskra stúdenta í samvinnu við Bandalag háskólamanna vakið athygli á stöðu námsfólks í gegnum átakið Mennt var máttur. Vert er að nefna að hér á landi hafa töluvert færri lokið háskólamenntun en í samanburðarlöndunum okkar. Samhliða þessu sækja sífellt færri námslán hjá Menntasjóði. Við eigum þann vafasama heiður að eiga Evrópumet í fjölda stúdenta sem geta ekki verið í háskólanámi án launaðrar vinnu.

Virðulegur forseti. Ég gæti haft lengra mál um þessi viðfangsefni, af nógu er að taka. Við jafnaðarmenn vitum að fólk hefur misháar tekjur og það verður þannig áfram. Við höfum hins vegar tapað baráttunni gegn fátækt ef við höldum því fram að það sé náttúrulögmál að þessir hópar líði skort og það þurfi ekki að vinna markvisst að því að hugsa úrræðin okkar út frá þeim sem allra minnst hafa á milli handanna.