154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða fátækt og kostnað við fátækt, skýrslu sem hv. þm. Halldóra Mogensen bað um, og ber að þakka fyrir það, og forsætisráðherra flutti og er bara hið besta mál. Í umræðu um skýrsluna kom fram að stefnt er að áframhaldandi greiningu og í skýrslunni er mikið af gögnum og þar eru t.d. bæði súlurit og kökurit en staðan er bara einföld: Fólk borðar ekki súlurit, kökurit eða greiningar. Það lifir ekki á því. Eina sem fólk getur nýtt sér er það sem það fær í vasann til þess að kaupa fyrir og þar stendur stór hópur höllum fæti.

Það sem er kannski merkilegast við þessa skýrslu er það sem vantar inn í hana. Það sem vantar inn í skýrsluna og ég get ekki sætt mig við er þessi aðferðafræði sem er notuð til að reikna út fátæktina þó að hún geti kannski gilt erlendis og þessi Gini-stuðull sem er notaður til að finna út meðaltal er ekki nothæfur hér á Íslandi. Og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að við erum með svo stórfurðulegt kerfi. Við erum með kerfi þar sem við greiðum fólki ákveðnar upphæðir og það fer inn á skattskýrslu viðkomandi en svo 1. júlí ár hvert, það var alltaf 1. ágúst, kemur bakreikningur þar sem við heimtum til baka af þeim sem við erum búin að borga. Hvað höfum við heimt til baka síðustu ár eða 2022? 8 milljarða.

Þarna er komin 8 milljarða skekkja strax inn í þennan útreikning sem segir okkur að til þess að geta haft réttar tölur þurfum við að hafa þessa skekkju í kerfinu inni. Þetta er nákvæmlega það sama og hæstv. fjármálaráðherra hefur margoft verið að tala um, lægstu tíundina, tíunda lægsta tekjubilið og hvað það hafi hækkað mikið. Þar er þetta heldur ekki inni og þetta er ekki hjá Hagstofunni, þetta er hjá Tryggingastofnun ríkisins af því að þetta er greitt löngu seinna, jafnvel allt að þrjú ár aftur í tímann. Það tekur þrjú ár fram í tímann að greiða bara eitt ár. Spáið í þetta kerfi. Hverjir bjuggu til svona arfavitlaust kerfi? Jú, fjórflokkurinn undanfarna áratugi. Þau verja kerfi sem er alveg stórfurðulegt, að það skuli vera hægt yfir höfuð að setja veikt fólk og eldri borgara í eitthvert svona ömurlegt kerfi, bútasaumaðan óskapnað sem ég hef líkt við Frankenstein. Við búum bara til nýjan bút og okkur er alveg sama hversu ljótur og vonlaus hann er, við tékkum ekkert á því hvaða áhrif þessi bútur sem við setjum inn í gegnum kerfið hefur og alla leið yfir í félagslega bótakerfið. Þar er líka enn ein skekkjan af því að þessar skerðingar og allt þetta hefur líka áhrif í félagsbótakerfið. Höfum við upplýsingar um það? Nei. Hefur fólk upplýsingar um hvers vegna það er verið að skerða það? Nei. Það er bara ein tölva í Tryggingastofnun ríkisins sem spýtir því út: Þetta tökum við af þér, gjörðu svo vel.

Og hugsið ykkur, núna bara í fyrradag var að koma fram mál í Landsrétti þar sem öryrki skuldaði Tryggingastofnun ríkisins 590.000 kr. Hvað gerði Tryggingastofnun ríkisins? Setti íbúðina á uppboð, seldi ofan af henni íbúðina og ekki nóg með það, þeir tóku líka eitthvert sumarbústaðaland sem hún átti og seldu það líka. Hún gat ekki varið sig því hún var erlendis. Hvað sagði umboðsmaður Alþingis? Þetta er ekki löglegt. Þið megið ekki gera þetta. Hvað sagði Landsréttur? Þetta er kolólöglegt. Hvernig dettur ykkur þetta bara í hug?

Við höfum annað dæmi, um fatlaðan einstakling á Suðurnesjum. Hvað var gert við hann? Jú, hann var borinn út. Einhver auðmaður þurfti að græða þar 50 milljónir og sýslumaðurinn sá til þess. Haldið þið að þetta sé löglegt? Ef það er einhvern veginn hægt að flokka þetta sem löglegt þá er það svo gjörsamlega siðlaust að það er engu lagi líkt.

En á hvern hefur fátækt mest áhrif? Hvað er það í fátækt sem er ljótur blettur og er eitthvað sem við verðum að taka inn í dæmið? Jú, það er fátækt kvenna. Bretar gerðu könnun um áhrif fátæktar á ævilíkur kvenna. Háskóli í Bretlandi gerði könnunina 2001–2016 og þar kemur fram að dauðsföll meðal Breta sem búa við fátækt, sérstaklega meðal kvenna, eru mjög mörg. Munur á milli kvenna sem lifa við fátækt og þeirra sem lifa við velmegun er um sjö ár og bilið eykst. Konur sem lifa við fátækt lifa að meðaltali 78,8 ár í Bretlandi. Þær sem eru efnameiri lifa að meðaltali 86,7 ár eða mun lengur. Ég er hræddur um að staðan sé svipuð hér. Það þarf að athuga þetta vegna þess að ég veit af fólki sem fer ekki til læknis af því að það hefur ekki efni á því. Húsnæði, fæði og börnin eru í forgangi, ekki eigin heilsa. Þetta eru því mjög sláandi tölur.

Ef við bara hugsum um þetta og fátæk börn, stúlkubarn í fátækt, frá fæðingu til elli — hvaða áhrif hefur fátæktin á lífslíkur þessa barns? Við verðum að spyrja okkur: Hvernig í ósköpunum getum við haft þetta svona? Hvernig í ósköpunum? Ég held við þurfum að athuga þetta vel og vandlega vegna þess að það er grafalvarlegt mál ef bæði konur og karlar, að vísu er það aðeins minna meðal karla en kvenna, geta ekki leitað sér læknishjálpar vegna fátæktar og það bitni svo illa á þeim að fólk er ekki aðeins að svelta heldur eru ævilíkur þeirra að stórminnka.

Annað sem var sláandi í þessari könnun var að rannsóknir benda til þess að banamein þeirra fátæku sé oft veikindi og sjúkdómar sem auðvelt er að koma í veg fyrir. Þau deyja úr sjúkdómum sem hefði verið auðvelt að lækna ef þau hefðu skilað sér í læknismeðferð. Ég segi fyrir mitt leyti að það er grafalvarlegt mál ef einhverjir geta ekki leitað sér læknishjálpar vegna fátæktar og það bitnar svo illa á þeim að þeir deyja úr sjúkdómum sem auðvelt væri að lækna ef þeir skiluðu sér inn. Það segir sig sjálft, og ég hef því miður orðið var við það, að hjá þeim sem lifa við fátækt í dag er læknisþjónusta ekki í fyrsta, ekki í öðru og ekki í þriðja sæti. Í fyrsta, öðru og þriðja sæti er að lifa af og hafa í sig og á. Við vitum það að konur eru þarna veikasti hópurinn, konur setja börnin sín í forgang.

Ég vildi óska þess að ríkisstjórnin myndi setja börn í forgang. Ég vildi óska þess að ríkisstjórnin hefði það markmið að ekkert barn væri að lifa í fátækt. Það á að vera kjörorð okkar hérna á þingi: Ekkert barn í fátækt. Eitt barn í fátækt er einu barni of mikið. En það er því miður ekki staðan.

Við verðum líka að átta okkur á því að við erum með þetta kerfi sem er svo stórundarlegt að það er ekki nóg með að við þurfum að endurgreiða 8 milljarða til baka ári seinna heldur fáum við síðan upplýsingar um það að skerðingarnar í kerfinu eru að aukast stórlega. Eins og ég hef áður bent á þá voru árið 2020 62 milljarðar í skerðingar, 2021 voru það 70 milljarðar, hækkaði um 8 milljarða. Á síðasta ári, 2022, milli 2021 og 2022, 5 milljarðar í viðbót. 8 milljarðar, 5 milljarðar, 7 milljarðar. Þetta er ekki tekið inn í breytuna. Það er eins og við stingum hausnum í sandinn og hugsum bara: Ja, þetta eru bara tölur á blaði, þetta er bara greinargerð, súlurit, kökurit og við ætlum að taka á þessu einhvern tímann í framtíðinni og við ætlum að draga úr fátækt. Við eigum ekki að leyfa okkur að segja þetta. Við eigum að útrýma fátækt. Við getum það. Við erum rík þjóð og það á að vera okkur mjög auðvelt.

Ég sé að tími minn er útrunninn þannig að ég ætla að biðja virðulegan forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá vegna þess að ég hef ekki lokið máli mínu.