154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:39]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef kannski ekki miklu efnislega að bæta við það sem fram hefur komið í ræðum félaga minna, hv. þingmanna Jóhanns Páls Jóhannssonar og Dagbjartar Hákonardóttur, hér fyrr í þessari umræðu í dag. Mig langar þó að leggja örfá orð í belg. Eins og önnur hér langar mig að þakka fyrir þessa skýrslu og fagna því sérstaklega að það eigi að byggja á henni áframhaldandi vinnu, af því að það er fullt tilefni til þess. Ég heyri ekki betur en að í þessum sal sé nokkuð góður samhljómur um forgang og mikilvægi þess verkefnis sem hér er undir. Skýrslan lýsir ágætlega, finnst mér, stöðunni í samfélagi okkar, hver það eru sem eru lakar sett efnahagslega, líka félagslega, og hvernig við getum þá tekist á við það saman.

Það hlýtur að vera og er alltaf forgangsatriði, a.m.k. okkar jafnaðarmanna, að draga úr fátækt barna. Það hlýtur alltaf að vera forgangsmál okkar að draga úr fátækt barna og helst útrýma henni. Það á við um börn á Íslandi og það á líka við um börn í öðrum löndum. Öll börn búa á heimilum með fullorðnu fólki, öll börn á Íslandi í það minnsta búa á heimilum með fullorðnu fólki, og börnin sjálf eru kannski ekki fátæk en efnin sem foreldrar þeirra eða forráðamenn búa við eru þá kannski lítil. Hér er farið yfir staðreyndir um þetta, eins og við þekkjum svo sem öll og eigum að kunna aftur á bak og áfram hér í þessum sal. Um hvaða börn er að tefla? Það eru börn einstæðra foreldra, oftast mæðra, þó ekki alltaf, það eru börn þeirra sem hafa misst heilsuna eða starfsgetuna og eru á örorkulífeyri og það er nú á þessari nýju öld nýr hópur barna sem eru börn innflytjenda sem hafa komið til Íslands til lengri eða skemmri dvalar til að starfa á íslenskum vinnumarkaði. Kannski er það stærsta breytingin í þessu umhverfi á síðustu 15 árum eða svo, þessi mikli fjöldi innflytjenda, sem sést best á því að ef ég man rétt er fimmta hver manneskja á vinnumarkaði frá öðru landi en Íslandi. Allt þetta fullorðna fólk á nefnilega börn — næstum því allt, kannski ekki alveg allt.

Ég er þeirrar skoðunar að allt tal um að öllum verði lyft með einhverju einu allsherjarátaki upp úr fátækt eða upp fyrir einhverja línu, að það séu ekki aðgerðir sem skili okkur því sem við þurfum að ná í samfélaginu. Þessi skýrsla getur grundvallað markvissar aðgerðir til handa þeim börnum sem búa á efnalitlum heimilum, til handa þeim börnum sem af einhverjum ástæðum búa við félagslega einangrun, hvort sem hún er vegna fátæktar eða af öðrum ástæðum, og til handa þeim börnum og því unga fólki sem nær ekki að fóta sig almennilega í samfélaginu eða þarf lengri tíma til þess en jafnaldrar þeirra af einhverjum ástæðum sem geta auðvitað verið fjölmargar. Þess vegna hlýtur það að vera líka forgangsmál að við stöndum saman að því að móta heildstæða stefnu um málefni barna og ungmenna hér á landi. Og okkur ber að gera það samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ef ég vitna hér í svar skriflegt svar sem ég fékk frá hæstv. mennta- og barnamálaráðherra í sumar, þar sem ég spurði hann um opinbera stefnu eða áætlun um að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi, þá var í sjálfu sér viðurkennt að það væri skylda stjórnvalda að gera það en það væri í rauninni ekki — mér fannst alla vega augun ekki vera á þessari heildstæðu stefnu. Það er vissulega talað um farsæld barna og umgjörðina sem sú stefnumótun felur í sér, sem auðvitað skiptir máli, en kannski ekki að augun séu á því hvernig við grípum, hvernig við nýtum skattkerfi og stuðningskerfi við fjölskyldur til þess að létta undir með þeim hópum sem standa lakast í efnalegu og félagslegu tilliti. Ég efast ekkert um vilja ráðherrans sem hér um teflir eða vilja hæstv. forsætisráðherra til að takast á við þetta og ég held að það sé mjög mikilvægt að við notum þessa skýrslu til að vinna áfram þverpólitískt að þeim aðgerðum sem þarf að grípa til.

Ein tafla í þessari skýrslu, á bls. 31, kafla 2.6, lýsir mynd 12. Þar er fjallað um langtímaáhrif fátæktar í æsku. Þar sjáum við bókstaflega svart á hvítu hvernig það hefur áhrif á allt líf barna inn í hvaða tekjuhóp þau fæðast og í hvaða tekjuhópi þau alast upp. Hér erum við að tala um einstaklinga fædda 1984–1986, fólk sem núna er komið undir fertugt, og það er eiginlega sláandi að sjá hverjir hafa lokið framhaldsskólanámi og hverjir hafa lokið háskólanámi með tilliti til tekjumarkanna þegar þau voru börn. Mér finnst þessi tafla lýsa verkefninu mjög vel, hvað það er sem við þurfum að eiga við.

Ég ætla ekki, ég hef greinilega ekki tíma til þess heldur, að ræða um víxlverkun í raun fátæktar og heilsutaps eða heilsutaps og fátæktar. Við þekkjum það og vitum hvernig það virkar. En mér finnst mjög mikilvægt að við náum hér bæði upplýstri og vitrænni umræðu um það að þessir hópar — við vitum hverjir þeir eru, það er beinlínis sagt hér í lok skýrslunnar að við þurfum að einbeita okkur að börnum einstæðra foreldra og börnum innflytjenda og öryrkja vegna þess að þau séu í meiri hættu á því að búa við fátækt heldur en önnur börn á Íslandi. Þannig að fyrirmæli skýrslunnar eru í rauninni alveg skýr. Hvernig við gerum það skiptir auðvitað öllu máli og ég held að við séum nú flest í þessum sal sammála um að til þess notum við skattkerfið og tilfærslukerfið svokallaða en við þurfum líka að vera sammála um að það þurfi að einbeita sér sérstaklega að þessum hópum. Þá kallar það á endurskoðun á stuðningi við barnafjölskyldur, jafnvel á húsnæðisbótum, örorkukerfinu o.s.frv.

Ekki síður held ég að það kalli á það að við förum í sjálfsskoðun hvað varðar stuðning okkar við innflytjendafjölskyldur. Auðvitað fara börn innflytjenda í skóla á Íslandi, að sjálfsögðu gera þau það. Við vitum að þau geta fengið hvatapeninga hjá sveitarfélögunum, kannski nota þau hvatapeningana til að vera í pólsku í pólska skólanum á laugardögum, sem er alveg skiljanlegt en þá þurfum við kannski líka að horfast í augu við að við þurfum að styðja við betur svo að þau komist líka í fótboltann á þriðjudögum og fimmtudögum þannig að alvöru inngilding eigi sér stað, eins og það kallast víst á fínu máli nú orðið, þannig að þau eigi í raun og sann kost á því að vera þátttakendur í samfélaginu, að eiga vini sem búa í hverfinu, að vera í frístundinni í skólanum, að fara í íþróttir, ef það er það sem þau langar að gera, eða tónlistarnám. Að það sé ekki þannig að þau lokist með einhverjum hætti inni í sínum félagslega veruleika. Hann er mjög mikilvægur en til þess að inngildingin virki og til þess að við búum öll í sama samfélagi þá verður það að vera opið öllum þessum börnum og ungmennum á sömu forsendum. Það þýðir að við þurfum að huga alveg sérstaklega að börnum innflytjenda sem sest hafa að hér á landi.