154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:52]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir munnlega skýrslu sína um fátækt á Íslandi og samfélagslegan kostnað af henni. Þetta er mikilvægt úrlausnarefni og mikilvægt að við ræðum það hér á Alþingi. Það verður að segjast eins og er að þegar maður skoðar tölur um fátækt þá erum við ekki að standa okkur nægjanlega vel. Líka þegar maður skoðar skýrslur um fátækt þá virðumst við ekki hafa sett okkur nein markmið eða verið með heildstæða stefnu til að berjast gegn fátækt.

Þegar við skoðum þetta, og það kemur fram í skýrslunni, þá eru það einstæðir foreldrar, örorkulífeyrisþegar og innflytjendur sem verst standa þegar kemur að fátækt á Íslandi. Um 9.000 börn teljast undir lágtekjumörkum, eða væntanlega teljast foreldrar þeirra undir lágtekjumörkum, árið 2020 en alls reiknast að 47.795 einstaklingar séu undir nefndum mörkum þegar tekið er tillit til húsnæðisstuðnings og barnabóta.

Eins og segir á bls. 45 í fátæktarskýrslunni, með leyfi forseta:

„Alls voru tæplega 34.000 fjölskyldur undir lágtekjumörkum árið 2020. Þær vantaði að meðaltali rúmar 2,1 millj. kr. í ráðstöfunartekjur á ársgrundvelli til að ná lágmarkstekjumörkunum. Að lyfta þeim öllum upp í lágtekjumörkin hefði kostað 72 milljarða kr. Til að setja þetta í samhengi, þá voru heildarútgjöld ríkissjóðs það árið u.þ.b. 1.111,5 milljarðar kr. Fjárhæðin til að lyfta öllum fjölskyldum undir lágtekjumörkum hefði þannig numið um 6,5% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þetta árið“ — þ.e. árið 2020 — „varði ríkið 25 milljörðum kr. í tilfærslur vegna almannatrygginga og velferðarmála. Þessi ráðstöfun hefði því leitt til nær fjórföldunar útgjalda í þessum málaflokki. Hafa ber í huga að hér er líka um eitthvert ofmat að ræða vegna þeirrar skekkju sem hlýst af háskólanemum og skorti á upplýsingum um námslán.

Ef markmiðið hefði verið hóflegra, þ.e. að lyfta öllum börnum undir lágtekjumörkum upp í mörkin, hefði það kostað 16,5 milljarða kr.“ — 16,5 milljarðar kr. „Rétt er að benda á að slík aðgerð lyftir líka fullorðnum fjölskyldumeðlimum barna upp fyrir lágtekjumörkin enda engin leið að lyfta bara börnunum. Það væri metnaðarfull aðgerð en barnafátækt verður ekki leyst með smávægilegum breytingum á barnabótakerfinu eða öðrum tilfærslukerfum.“

Þetta er spurning um metnað, þetta er spurning um metnað ríkissjóðs og ríkisvaldsins að gera átak í því að lyfta öllum börnum upp úr fátækt. Það er grundvallaratriði og spurningin er þessi: Höfum við þennan metnað eða ekki?

Ég er hér með nokkur ljósrit úr skýrslu Barnaheilla frá árinu 2023, sem var gefin út á ensku og fjallar um fátækar fjölskyldur eða, með leyfi forseta, Family poverty in the Nordic countries, fjölskyldur í fátækt á Norðurlöndunum. Þar kemur í ljós að vissulega hafi áhætta á fátækt hjá börnum minnkað síðan 2015 frá 16% upp í 12,7% 2021. Það er eðlilegt þar sem við erum þarna í miklum efnahagsvexti vegna þess að við erum að vinna okkur vel út úr hruninu. En svo segir þar líka að því miður sýni nýlegar tölur sem gefnar eru út af Hagstofu Íslands að það er áfram vaxandi fátækt á Íslandi hjá börnum. Það er áfram hætta á því að börn detti í fátækt og það er komið núna upp í 13,1% á árinu 2022.

Við erum sem sagt ekki á réttri leið eins og hæstv. forsætisráðherra sagði hér í upphafi. Við erum það ekki og það er alvarlegt mál.

Ef við skoðum málið enn frekar þá er það einungis í Svíþjóð, með sín stórkostlegu vandamál núna í dag, þar sem fátækt barna er hærri en á Íslandi. Við erum núna næsthæst hvað fátækt barna varðar á öllum Norðurlöndunum, einungis ofar en Svíþjóð. Það er líka alvarlegt mál að við erum að tala um meiri háttar vandamál hér.

Annað sem kemur fram í skýrslunni og er vert að athuga er raunverulega það sem snýr að þeim sem eru stefnumótandi og að stjórnvöldum. Þar er m.a. tafla sem er mjög áhugaverð sem fjallar um það sem Barnaheill segja, Save the children á ensku — Barnaheill er raunverulega stofnað 1989, 70 árum eftir að — ég held að það hafi verið hjón sem stofnuðu Save the children 1919, sem heitir Barnaheill á íslensku — að stjórnvöld verði að innleiða ákveðna þætti til þess að berjast gegn fátækt fjölskyldna.

Þau telja tíu þætti, þetta er ekki tæmandi listi, en að stjórnvöld verði að innleiða þessa tíu þætti ef það á að berjast gegn fátækt. Þar er gefið: Já, landið hefur mætt þessum kröfum. Landið hefur ekki alveg mætt kröfunum, það er einn liðurinn. Og: Nei, landið hefur ekki mætt þessum kröfum. Hvar stendur Ísland þegar við förum niður listann af þessum tíu atriðum sem Barnaheill telja að stjórnvöld verði að innleiða til að berjast gegn fátækt fjölskyldna og þar með barna líka? Jú, það er í einu atriði, í einu atriði af tíu er Ísland á grænu. Í einu atriði hefur Ísland mætt þessum kröfum. Það er varðandi frístundaprógrömm eftir skóla, þau hafa styrkt þau eða niðurgreitt þau verulega. Það er eina atriðið þar sem Ísland mætir kröfunum sem Barnaheill gera til stjórnvalda. Varðandi sex af þessum kröfum er Ísland í: Nei. Ísland mætir þeim ekki. Ísland er ekki að standa sig í sex af tíu atriðum. Í þremur atriðum náum við þessu ekki alveg. Þannig að raunverulega er það bara í einu ef tíu atriðum þar sem við erum að standa okkur. Í þremur atriðum náum við ekki kröfunum en í sex atriðum erum við alls ekki að standast kröfurnar.

Og hverjar eru kröfurnar, með leyfi forseta? Fyrst er það að við erum ekki með neina þjóðarstefnu gegn fátækt og fátækt barna. Við erum ekki með neina stefnu um að berjast gegn fátækt barna. Við erum hins vegar með alls konar aðrar stefnur. Við erum með ætlanir, við erum með samgönguáætlun og guð má vita hvað ekki. En við erum ekki með neina stefnu um að berjast gegn fátækt. Þar erum við á rauðu.

Annað er barnabætur. Þar stöndum við okkur ekki nægjanlega vel samkvæmt Barnaheill. Og eins og ég er þegar búinn að nefna þá varðar það sem við stóðumst niðurgreiðslur prógramma fyrir börn eftir skóla. Við stöndum okkur ekki heldur varðandi t.d. árlega tölfræði um fátækar fjölskyldur. Við stöndum okkur ekki, í fimmta lagi, varðandi vísa um fátækt sem væri hægt að nota til að berjast gegn fátækt. Við setjum okkur ekki markmið um að minnka fátækt barna sem vaxa úr grasi hjá lágtekjufjölskyldum. Það er sjötta atriðið. Við erum ekki með ókeypis menntun, við erum á gulu þar. Við erum ekki með nægilega mikið af ókeypis menntun sem minnkar ójöfnuð og eykur félagslegan hreyfanleika, svo fólk geti farið upp samfélagsstigann.

Við stöndum okkur ekki nægilega vel varðandi stefnu stjórnvalda um að börn geti tekið þátt í tómstundum. Þar erum við á gulu ljósi. Við mætum ekki þeim kröfum sem þar eru gerðar. Við stöndum okkur ekki, við erum á rauðu ljósi þegar kemur að rétti barna þegar litið er til húsnæðis lágtekjufólks, þar erum við líka á rauðu. Og í tíunda lagi, ekki síst, eru almannatryggingar sem eru notaðar til að lyfta börnum og barnafjölskyldum úr fátækt, þar erum við líka á rauðu.

Þannig að við erum alls ekki að standa okkur með nokkrum einasta hætti nema það að jú, við sjáum til þess að börn hafi nægjanlega mikinn og ókeypis aðgang eða þá niðurgreidda þjónustu eftir skóla. Það er það eina sem við erum að gera vel.

En til þess að berjast gegn fátækt þá verður að vera verðmætasköpun. Við erum í dag sjötta ríkasta samfélag heims, sjötta ríkasta þjóð heims samkvæmt Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD í París. Það að svona lítið samfélag eins og Ísland skuli vera þannig að 13,1% barna á Íslandi eigi á hættu að búa við fátækt og félagslega einangrun eða alast upp við fátækt, er hneyksli. Svo einfalt er það. Svona lítið samfélag á ekki að láta það líðast að 13,1% barna eigi á hættu að búa við fátækt. Það gengur einfaldlega ekki. Vegna fátæktar líða börnin fyrir skort á tækifærum til menntunar, njóta síður heilbrigðisþjónustu og næringarríkrar fæðu og búa við ótryggar, jafnvel heilsuspillandi húsnæðisaðstæður og umhverfi, stunda síður tómstundir, njóta síður stuðnings og verndar gegn ofbeldi. Fátækt er fjölþættur vandi og að alast upp við fátækt getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir börn og er í raun ein helsta ástæða þess að börn njóta ekki réttinda sinna. Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að búa við fátækt sem fullorðnir einstaklingar. (Forseti hringir.) Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og við verðum að vera með heildstæða stefnu sem er haldbær og vera metnaðarfull til að berjast gegn því að Íslendingar og íslensk börn búi við fátækt. Á Íslandi er einfaldlega allt of ríkt samfélag til að svo sé.