154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:03]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu er mikið talað um fátækt barna. Forsætisráðherra og margir þingmenn hafa miklar áhyggjur af fátækt barna, eðlilega. Það eiga engin börn að búa við fátækt eða líða skort. En þá komum við að kjarna málsins. Börn geta ekki verið fátæk. Þau geta búið við fátækt, en þar sem þau eru ekki fjárráða þá er það í besta falli blekking að láta eins og börn séu fátæk. Börn búa við fátækt einfaldlega af því að foreldrar þeirra eru fátæk. Börn búa t.d. við fátækt af því að foreldrar þeirra eru einstæðir og börn búa við fátækt af því að foreldrar þeirra vinna láglaunastörf, t.d. á Eflingartöxtum sem atvinnulífið heldur að muni setja allt á hliðina, verði þeir hækkaðir. Einnig búa börn við fátækt af því að foreldrar þeirra eru á leigumarkaði og greiða allt of stóran hluta tekna sinna í ört hækkandi okurhúsaleigu. Svo búa fjölmörg börn við fátækt af því foreldrar þeirra eru öryrkjar á fáránlega lágum örorkubótum sem skerðast með grimmilegum hætti.

Ítrekað er samt rætt um fátækt barna, sem eykst og eykst, eins og enginn skilji hvers vegna svo er. Eins og að við getum bara ekkert að þessu gert, að um einhvers konar náttúrulögmál sé að ræða. Að auki er alltaf rætt um fátækt barna eins og það sé hægt að hafa áhrif á hana án þess að gera eitthvað í kjörum foreldranna. Einhvern veginn virðist vera auðveldara að ræða fátækt barna, svo mótsagnakennt sem það er, en að ráðast að rót vandans, sem er þjóðfélag misskiptingar, misskiptingar sem hefur bara aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við breytum ekki fátækt barna fyrr en við lögum kjör foreldra þeirra.

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt fram þingsályktunartillögu um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Formaður flokksins, Inga Sæland, mælti síðast fyrir tillögunni í september. 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust er ekki mikið og það er algjörlega til skammar að þessi hógværa tillaga hafi ekki verið samþykkt nú þegar. Þegar reiknivél umboðsmanns skuldara er skoðuð kemur t.d. í ljós að sú fjárhæð sem þykir nauðsynleg fyrir framfærslu einstaklings fyrir utan húsnæði eru 215.000 kr. á mánuði. Ef þessi einstaklingur greiðir 250.000 kr. í húsaleigu, sem er nokkuð vel sloppið í dag, eru útgjöld hans þegar orðin 465.000 kr. á mánuði. Og ríkisstjórnin er ekki tilbúin til að samþykkja 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust.

Reiknivél umboðsmanns skuldara segir að einstætt foreldri með eitt barn þurfi 275.000 kr. til framfærslu og ef við reiknum aftur með húsaleigu upp á 250.000 kr. eru útgjöldin orðin 525.000 á mánuði. Framfærslukostnaður hjá einstæðu foreldri með tvö börn er 340.000 kr. og með sömu húsaleigu, sem er, eins og ég sagði áðan, tiltölulega lág í dag, upp á 250.000 kr. eru útgjöldin 590.000 á mánuði. 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust er nefnilega engan veginn nóg. Við hjá Flokki fólksins gerum okkur fulla grein fyrir því, en það munar þó miklu á því og 300.000 kr. á mánuði, eins og þúsundir búa við, og við verðum að leggja til fjárhæð sem er a.m.k. einhver smá von til að fá samþykkta. 400.000 kr. skatta og skerðingarlaust eru nefnilega algjört lágmark sem við þurfum að tryggja fólki.

Til að fá um 400.000 kr. útborgaðar fyrir vinnu þarf fólk að hafa 525.000 kr. í laun. Það eru margir á töxtum hjá bæði Eflingu og VR sem eru með lægri laun en það fyrir fulla vinnu. En þrátt fyrir það er þetta fólkið sem ber víst ábyrgð á verðbólgunni og á að sýna skynsemi í kjarasamningum, ef marka má orð fulltrúa vinnuveitenda og fleiri aðila. Já, fólkið sem á vart til hnífs og skeiðar, og gæti ekki einu sinni valdið þenslu þó það myndi gjarnan vilja það á að sýna hófsemi í kröfum. Við þá sem viðhafa slíkan málflutning vil ég segja að það er engin skynsemi í því að semja um laun sem ekki duga til framfærslu og ekki mun það hafa góð áhrif á fátækt barna. Það er hins ávísun á hörmungar og fátækt að semja um laun sem ekki duga til framfærslu.

Kaldhæðnin í þessum málflutningi er hins vegar sú að fólkið sem hæst talar fyrir hófsemi þeirra sem verst hafa það er yfirleitt með í kringum 2 milljónir í laun á mánuði og veit ekki hvað það er að lifa við skort. Auk þess ber þetta sama fólk gríðarlega mikla ábyrgð á því hversu slæmt ástandið er, ekki hvað síst á húsnæðismarkaði, þar sem fyrirsjáanleiki er enginn og vaxtastigið er að valda þúsundum heimila gríðarlegum vanda akkúrat núna, sem ekki sér enn fyrir endann á.

Ísland er eitt af ríkustu löndum heims og hér eiga allir að geta lifað hófsömu og mannsæmandi lífi. Það þurfa ekki endilega allir að hafa nákvæmlega jafn mikið en það á enginn að þurfa að líða skort. Hófsamt og mannsæmandi líf er að eiga fyrir fæði, klæði og húsnæði auk þess að geta greitt fyrir tómstundir fyrir börnin sín og geta tekið sér frí, þótt það sé ekki endilega til útlanda.

Við skulum líka ekki gleyma því að efnahagur skiptir gríðarlega miklu máli fyrir heilbrigði fólks. Það að lifa í stanslausri fjárhagslegri pressu og hafa áhyggjur af fæði, klæði og húsnæði um hver einustu mánaðamót, og jafnvel meiri hluta mánaðarins dregur alla orku úr fólki og fyllir það smám saman af vonleysi sem erfitt er að lifa með. Langvarandi álag af þessu tagi getur hæglega leitt til álagssjúkdóma eins og t.d. vefjagigtar sem og kulnunar og þunglyndis. Enda hlýtur einhver ástæða að vera fyrir því að Íslendingar eigi heimsmet í notkun þunglyndislyfja. Við hljótum að þurfa að skoða okkar gang.

Hér þarf að setja fólkið í forgang en ekki fjármálafyrirtæki eða leigufélög Hér þarf að hækka bætur og laun þannig að fólk geti lifað af laununum sínum Hér þarf að koma reglu á húsnæðismarkað sem er eins og villta vestrið í höndum fjárfesta þar sem fyrirsjáanleiki er enginn. Hér þarf að bæta kjör öryrkja og aldraðra og hér þarf að hætta að skattleggja fátækt. Hér á kjörorðið að vera, á þessu góða landi sem við þó eigum: Fólkið fyrst og svo allt hitt.