154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það eru þrír þingmenn Samfylkingarinnar búnir að tala hér í dag og ég geri auðvitað þeirra orð að mínum en fannst samt tilhlýðilegt að koma og segja örfá orð um þessa skýrslu sem ég fagna. Hún er yfirgripsmikil og góð og það er ástæða til að þakka fyrir hana. Ég er líka ánægður að heyra að það standi til að fylgja henni eftir, bæði með því að vinna gögn reglulega og einnig að það verði unnin vinna þvert á flokka í velferðarnefnd til þess að við getum brugðist við og ég held að við séum öll sammála um að það þarf að gera. Ég held reyndar að það sé rúmur meiri hluti hérna inni fyrir þeim breytingum sem ég tel að þyrfti að gera til að ná sem bestum árangri þótt ég taki líka heils hugar undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að sú vegferð mun ekki gerast með einu pennastriki heldur lið fyrir lið. Okkur kann svo að greina á um hversu hratt er hægt að fara fram.

Það kemur fram í skýrslunni að hugtakið fátækt snýst ekki eingöngu um það hvort fólk eigi til hnífs og skeiðar þó að sá skortur sé vissulega alvarlegasta form fátæktar. Það er auðvitað ánægjulegt að við séum þó komin á þann stað að húsnæðisöryggi, útilokun frá félagslegri þátttöku og öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða sé líka skilgreint sem skortur. Það er einkenni á þróuðu samfélagi. En fátækt er allt of útbreidd á Íslandi og við þurfum að bregðast við. Samkvæmt skýrslunni minnir mig að það hafi verið talað um að um 9.000 börn hafi búið við skort eða fátækt árið 2020. Það er því miður lítil vísbending þegar maður skoðar kúrfuna um að sú staða hafi batnað mikið allra síðustu ár.

Mín skoðun er sú að ríkisstjórnin hefði getað gert meira til að bæta stöðuna. Þvert á móti núna, vonandi tímabundið, hefur efnahagsástandið þróast almennt þannig að það má gera ráð fyrir því, a.m.k. tímabundið, að mun fleiri heimili og þar af leiðandi börn muni þurfa að glíma við erfiðleika á næstu misserum samfara hárri verðbólgu, háum vöxtum og minnkandi kaupmætti. Þetta vonandi jafnar sig en það er alvarlegt þegar börn flosna upp úr tónlistarnámi eða þurfa að hætta í íþróttum svo þetta er auðvitað grafalvarleg staða þó að hún vari ekki nema einhverja mánuði.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður velferðarnefndar, kom hérna áðan og og sagði að margt gott hefði verið gert og ég er alveg sammála því. Ef við eigum að vera sanngjörn þá hefur ýmislegt áorkast. Mínar athugasemdir eru bara þær að ég tel að það sé hægt að ganga fram með markvissari og harðari hætti. Ég geri mér grein fyrir því að ríkisstjórnin er samsett úr ólíkum flokkum og trúi því að hæstv. forsætisráðherra sé sammála mér um ákveðnar aðgerðir. Það er hægt að ráðast í tekjuöflun hjá þeim sem eru mjög vel aflögufærir og við getum síðan notað þær tekjur til að beina inn í millifærslukerfin sem eru mjög skilvirk leið til þess að jafna kjörin. En það er einnig, eins og bent er á í skýrslunni, hægt að byggja upp betri velferðar- og heilbrigðisþjónustu sem gagnast öllum og ekki síst þeim fátæku.

Það er líka hægt að fara kolranga leið og þá kemur mér til hugar þessi vegferð sem er verið að fara í einstökum sveitarfélögum, Kópavogi og mér sýnist á Akureyri núna, að auglýsa leikskólaþjónustu ókeypis í sex klukkutíma en síðan borgar fólk fullt gjald fyrir tvo tíma. Í fyrsta lagi kemur þetta sennilega efnaminnsta hópnum langverst og algjörlega óljóst hvernig hann á að ráða við þessa aukatíma. Hins vegar er þetta bara risastórt bakslag í jafnréttisbaráttunni svo að ég hef efasemdir um það.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson ræddi um borgaralaun og það er áhugaverð hugmynd. Ég held að við þurfum að afla okkur þekkingar á eðli borgaralauna vegna þess að við erum að keyra inn í tíma sem verða gjörbreyttir þar sem störf munu breytast, sumir segja að þeim muni fækka, tæknin mun leika stærra hlutverk og eðlilegra að afla tekna kannski af framleiðslueiningum eða róbótum eða einhverju en ekki af launatekjum. Það breytir því þó ekki að ég er ekki viss um að við séum komin á þann stað. Ég hef heldur ekki séð útfærslu á borgaralaunum sem við myndum hreinlega ráða við hér. Ef það á að borga öllum flatt lágmarksframfærslu þá væntanlega kostar það svo mikið að það þarf að borga fyrir allt umfram það og ég er ekki viss um að mikill jöfnuður felist í því. Þvert á móti felst í því sóun vegna þess að þá er verið í byrjun að láta okkur sem þurfum ekki á þessari aðstoð að halda að fá peninga sem við þurfum ekki.

Þessi framtíð sem mun fylgja tækninni, nýrri tækni, mun gera það líka að verkum að það eru ekkert allir sem vinna minna, ekkert allir sem hætta að vinna. Álagið mun bara dreifast mjög misjafnlega á fólk þannig að ég er ekki búinn að sjá það að þetta sé lausnin í dag. Ég held frekar að við eigum að vinna að þessum þáttum með þessum klassísku leiðum sem við höfum verið að nota; með skattkerfinu, með millifærslukerfinu og með því að byggja upp gott velferðar- og heilbrigðiskerfi.

Það er ekki hægt að sleppa því í þessari umræðu að nefna húsnæðisskortinn og hvaða áhrif hann hefur á velferð barna. Það eru bara allt of mörg börn sem hrekjast á milli húsa og hverfa vegna erfiðs leigumarkaðar og eru með reglulegum hætti rifin upp úr umhverfi sínu, þurfa að skipta um skóla, þurfa að hætta í tómstundum, þurfa að skipta um íþróttafélag og eiga fyrir vikið erfitt með félagsleg tengsl. Þetta auðvitað fylgir þeim mögulega alla ævi. Í því ástandi sem við búum við í dag eiga foreldrar þessara barna ekki neina möguleika á að fjárfesta í húsnæði vegna vaxta og verðlags, ekki síst á tímum þar sem er verulegur skortur á húsnæði yfirleitt. Ríkisstjórnin hefur vissulega bætt í stofnframlögin en ég tel að það þurfi að gera miklu betur en þetta og þurfi að taka miklu fastari tökum. Þetta er ekki átaksverkefni. Við þurfum að finna einhverja leið til að tryggja jafnt og öruggt framboð marga áratugi fram í tímann og við hljótum að geta fundið leiðir til þess.

En að síðustu þá hlýtur að vera hægt að slá a.m.k. verulega á fátækt í landi sem er eitt af því allra ríkasta í heiminum og ég er, eins og ég sagði í upphafi, alveg sannfærður um að meiri hluti þingheims geti fundið leiðir og sameinast um þær. Við erum fámennt land og við eigum og við getum horft í gegnum meðaltöl, fram hjá meðaltölum, og skoðað stöðu nánast hvers einstaklings. Það er einmitt í litlu samfélögum sem hægt er að áorka miklu. En það er líka í slíkum samfélögum sem við getum eiginlega bara ekki unað við fátækt. Við getum alveg glaðst yfir stöðu eldri hjóna sem geta farið á hverjum einasta vetri í hitann niður til Spánar en að sama skapi getum við ekki sætt okkur við að hjón í næstu götu þurfi að neita sér um læknisþjónustu. Það sama með börn. Maður gleðst þegar börn standa sig vel í íþróttum eða í tónlist vegna þess að þau koma frá heimilum sem geta boðið þeim upp á þau gæði. En það er auðvitað ömurlegt að það séu til börn sem hrekjast úr tómstundastarfi einfaldlega vegna þess að efnahagur foreldra þeirra leyfir það ekki. Ég held að flestir hér inni a.m.k. séu sammála um það. Fyrir utan það svo að allar kannanir sýna að jöfnuður í samfélagi leiðir til miklu framsæknari, friðsamari og betri samfélaga en þeirra sem eru ójöfn.