154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú kannski ekki að lengja umræðuna mikið en því skaut upp í huga mér meðan ég hlustaði á hv. þm. Loga Einarsson fara yfir málin og ræða sérstaklega framtíðina og áhrif gervigreindar á vinnumarkað í framtíðinni — nú hef ég farið yfir það fyrr í dag hvernig ég vil halda þessari vinnu áfram og þá væri mjög áhugavert að heyra því að hv. þingmaður situr í framtíðarnefnd Alþingis, ef ég kann það rétt, hvort þar væri hugsanlega verkefni sem framtíðarnefnd Alþingis gæti tekist á hendur, þ.e. að reyna að fara í vinnu við að vinna einhvers konar greiningu á áhrifum gervigreindar og sjálfvirknivæðingar, ekki á vinnumarkaðinn, við eigum margar slíkar greiningar, en hreinlega að skoða áhrifin á fátækt. Það er í manni ákveðinn uggur, um leið og talað er um að gervigreindin geti stytt vinnutíma og breytt öllu okkar lífi til hins betra þá er í manni uggur líka yfir hvert hún leiðir okkur nákvæmlega, því að það eru ansi mörg vegamót á þessari leið þar sem skiptir máli hvaða stefna er tekin. Mér leikur forvitni á að vita hvort framtíðarnefnd Alþingis hafi eitthvað rætt þetta, til að mynda bara á fyrri stigum, möguleg áhrif bara á jöfnuð og fátækt í samfélaginu.