154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um fátækt og samfélagslegan kostnað vegna fátæktar og staðreyndin blasir við: Við þurfum ekki fleiri skýrslur. Við þurfum ekki fleiri línurit. Við þurfum ekki fleiri kökurit, súlurit. Við þurfum aðgerðir. Við þurfum að taka okkur til og útrýma fátækt. Það er hægt og ætti að vera hið minnsta mál.

Fátæktin er alltaf að birtast okkur í ýmsum myndum. Það er nýleg frétt á RÚV sem sýnir hversu gífurleg fjölgun hefur verið á fólki sem er að leita sér matar og reyna að fá að borða hjá Samhjálp. Þeir ætla að taka upp skráningarkerfi, fjöldinn hefur aukist um 17.000 á ári og er kominn upp í 90.000 manns, var það í fyrra, sem sækir um að fá mat. Hvað segir þetta okkur? Það sem hefur komið líka fram og sýnir okkur aðra birtingarmynd af ástandinu er að það er mikill fjöldi innflytjenda sem sækir þarna um mataraðstoð.

Eins og hefur komið fram í þessari umræðu þá er þessi skýrsla til alls góðs. Við höfum verið að ræða hana hérna í allan dag og þar af leiðandi ætti þetta að vera endir á þessu ferli. Við ættum ekki að vera að biðja um fleiri skýrslur en því miður á að biðja um fleiri skýrslur, það á að gera fleiri greiningar og fleiri línurit, fleira af öllu. Það er engin þörf á því. Það á að sjá til þess að reikna rétta framfærslu þannig að allir geti lifað hérna á Íslandi með reisn, að allir sem þurfa á mat, lyfjum eða læknisþjónustu að halda hafi efni á því, að fólk geti farið út í búð og valið sér sinn mat sjálft, þurfi ekki að fara í raðir til þess að bíða eftir að fá mat. Það er ömurlegt og á ekki að eiga sér stað.

Við getum þetta. Við í Flokki fólksins erum með tillögu um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Við erum búin að fjármagna það. Við viljum hætta með persónuafslátt fyrir þá ríku. Persónuafslátturinn er í dag 59.600 kr. og ætti að vera 90.000 kr. og síðan ættu lágmarkslaun að vera 400.000 kr., enginn ætti að fá minna en 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. En við erum ekki á móti öllum skerðingum. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þegar komið er í ákveðin tekjumörk þá verði að skerða vegna þess að það er ekki hægt að hafa það öðruvísi, enda er það innbyggt í kerfið. Meira að segja lífeyrissjóðakerfið okkar er þannig að þegar þú ert kominn í rúmar 700.000 kr. þá færðu ekkert frá Tryggingastofnun.

Það eru konur sem lenda verst í þessu og það er eiginlega óskiljanlegt að við skulum vera bara með 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrislaun vegna þess að ef við tökum meðaltal kvenna úr lífeyrissjóði þá eru konur að fá eitthvað um, held ég, milli 60.000 og 100.000 kr. Þess vegna ætti t.d. að vera 100.000 kr. frítekjumark. Bara það eitt myndi strax stórbæta hag þeirra verst settu og líka ef við myndum færa persónuafsláttinn upp í 90.000 kr. og líka það að við sem erum á háum tekjum þurfum ekki á persónuafslættinum að halda og við þurfum heldur ekki á þessu lægsta skattþrepi að halda.

Það er hægt að gera hlutina og hægt að gera þá strax. Eina sem er þarf er að hafa viljann til þess. En því miður þá virðist viljinn vera til þess að draga úr fátækt, draga lappirnar í kerfinu, búa til fleiri skýrslur, fleiri súlurit, fleiri línurit sem koma engum að gagni. Það er mikill kostnaður við það að vera alltaf að búa til skýrslur um það sem við vitum. Notum þá peninga fyrir þá sem þurfa á þeim að halda og sérstaklega börnin. Börn eru ekki fátæk. Fátækt foreldranna er það sem veldur því að börn líða skort. Við erum það ríkt samfélag að við eigum bara hreinlega að skammast okkur fyrir það að við skulum vera með börn í þeirri stöðu og sérstaklega þeirri stöðu að standa jafnvel í biðröð eftir að fá mat. Það er staðreynd og það getur enginn efast um það, það er bara rétt, að við eigum að hafa það að sjónarmiði að eitt barn í fátækt, hvað þá sárafátækt, er algjörlega einu barni of mikið.