154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu um þessa skýrslu, gott að finna þann áhuga sem er hér á Alþingi á þessu mikilvæga máli. Ég tel að skýrslan sé mjög góð en eins og ég fór yfir í framsögu minni þá er auðvitað, þótt umtalsvert sé af gögnum, minna af upplýsingum og enn minna af greiningum. Þegar hér er rætt um mikilvægi þess að gripið sé til aðgerða þá get ég að sjálfsögðu tekið undir það en um leið er mjög mikilvægt að við vinnum áfram greiningar og byggjum þær á bestu mögulegu gögnum og upplýsingum. Hér erum við til að mynda reglulega að bera saman ólíkar skýrslur sem miða við ólíka mælikvarða, annars vegar til að mynda börn í lágtekjufjölskyldum sem hefur verið vísað til hér í dag og hins vegar börn sem eru í þeim áhættuhópi að verða langtímafátæk. Þannig að þegar verið er að bera saman ólíkar skýrslur Barnaheilla eins og hér hefur verið gert þá er auðvitað líka mikilvægt að horfa á það að mælikvarðarnir eru ekki alveg þeir sömu.

Mín sýn á svona umræðu og svona skýrslu er að við getum a.m.k. sammælst um þetta: Hver eru gögnin? Hvaða upplýsingar höfum við? Hver er raunveruleg staða? Það er því miður þannig að við erum of oft í þessum sal að rífast um raunverulega stöðu og þá er mikilvægt að hafa þetta á hreinu. Einnig að við nýtum þetta til þess að ráðast í aðgerðir. Ég vil upplýsa hér, eins og ég sagði áðan, að ég á von á því að fá dýpri greiningar á einstökum hópum ásamt tillögum að aðgerðum. Ég á von á fyrstu greiningunni í kringum áramótin þannig að það er ekki langt í hana. Ég hefði hug á því að ræða það mál einmitt við velferðarnefnd Alþingis. Ég held það skipti ofboðslegu máli. Við sjáum að margt jákvætt hefur gerst og auðvitað vitum við hvað hefur þar spilað inn í; umbætur á almannatryggingum eldri borgara, lífeyrissjóðakerfið, húsnæðisstuðningur og annað slíkt. Við sjáum líka að við þurfum að gera betur, þurfum að gera meira og þá held ég að þetta samtal sé afskaplega mikilvægt til að við fetum okkur áfram því ég er ekki í nokkrum vafa eftir umræðuna hér í dag að það er ríkur vilji í þessum sal til þess að stefna að því markmiði að uppræta fátækt.

Ég ætla að leyfa mér að benda á, af því að hér hefur verið rætt um ólíka stöðu byggðarlaga, að um það er fjallað í skýrslunni, lágtekjuhlutfall eftir landsvæðum. Þar er rætt um Vestfirði þar sem lágtekjuhlutfallið hefur farið lækkandi á undanförnum árum. En því miður er staðan ekki eins góð alls staðar og þetta hlutfall hefur farið hækkandi á Suðurnesjum. Við skulum einmitt horfa á það að þarna koma mismunandi mælikvarðar inn. Ef við erum að ræða fátækt fólks í mismunandi byggðarlögum þá þurfum við að horfa á lágtekjuhlutföllin. Byggðirnar geta auðvitað verið viðkvæmar eða brothættar út frá öðrum orsökum en bara tekjum þeirra sem þar búa. Það er áhugavert líka að skoða nýlega skýrslu Byggðastofnunar um tekjur á íbúa landshluta í milljónum króna þar sem Austurland er efst en um leið sjáum við að þar eru kannski ekki endilega allir innviðir til staðar sem eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Vestfirðir næst, höfuðborgarsvæðið svo, síðan förum við niður í Vesturland, Norðurland eystra, Suðurland, Norðurland vestra og Suðurnes.

Þannig að þótt það megi segja að þeir séu margir starfshóparnir og margar skýrslurnar þá eru gögnin samt svo mikilvæg til þess að við getum rætt saman um þær aðgerðir sem bestar eru til þess að bæta lífskjör og auka lífsgæði almennings, sem er það markmið sem ég tel að við deilum öll hér. Ég hef ekki heyrt neinn hér í dag gagnrýna þessa skýrslu. Ég hef ekki heyrt annað en að fólk þyki hún góð, þetta sé gott gagn, og aðfinnslur ekki fundnar við aðferðafræði þessara fræðinga sem ég held líka séu í fremsta hópi þeirra fræðimanna sem við eigum á þessu sviði. Ég held að við eigum einmitt að nálgast þetta verkefni þannig að við séum með sameiginlegt markmið en viljum byggja okkar ákvarðanir á bestu mögulegu gögnum og upplýsingum.