154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:53]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég byrja á því bara að ítreka þakkir til hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma með þessa skýrslu fyrir þingheim sem ég tel vera mjög mikilvæga og mikilvægt að við tökum þessa umræðu sem hefur verið prýðileg í dag. Mig langar að spyrja forsætisráðherra að því hvort hún sé ekki tilbúin að beita sér fyrir því að þetta verði þjóðarstefna gegn fátækt barna og gegn fátækt. Það verði bara ákveðið skjal, eins og við erum með samgönguáætlun og menntastefnu og hinar og þessar áætlanir, hvort það sé ekki bara kominn tími til að við séum einfaldlega með áætlun hvað það varðar. Þá getum við líka haft það inni í áætluninni að taka út tekjuskerðingar og fátæktargildrur öryrkja og aldraðra í almannatryggingalögunum, af því að það er fólk sem getur enga björg sér veitt og t.d. konur sem fá eingöngu lífeyri almannatrygginga geti þá fengið desemberuppbótina sem þeim var neitað um í fyrra.

Síðast en ekki síst, og hæstv. forsætisráðherra kom inn á það, að við fáum árlega tölfræði um fátækt fjölskyldna, um fátækar fjölskyldur og fátækt barna. Ég er að telja hérna upp það sem Barnaheill telur að stjórnvöld verði að hafa til þess að berjast gegn fátækt fjölskyldna og þá er það árleg tölfræði og það verða að vera vísar til að berjast gegn fátækt og ákveðin markmið. Þannig að setjum þetta bara í alvöruframkvæmd, stefnuna, með tölfræðinni, með vísunum og með markmiðunum, þar sem við getum þá a.m.k. skorað meira en bara eitt stig af tíu stigum, af þeim atriðum sem Barnaheill segir að við eigum að gera til að taka þátt í baráttunni gegn fátækt fjölskyldna. Við erum því miður bara með grænt ljós á eitt atriði af tíu. Á hinum Norðurlöndunum er Danmörk með þrjú af tíu, (Forseti hringir.) Finnar eru með sex af tíu, Norðmenn eru með fjögur en Ísland er með eitt stig. (Forseti hringir.) Er ekki kominn tími til að við höfum stefnu um baráttuna gegn fátækt á Íslandi?