154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:00]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla svo sem ekkert að ræða Noreg enda hef ég ekki búið þar eins og hv. þingmaður. Það er erfitt að meta svona samanburð út frá tilfinningu. Ég nefni bara ágætan mælikvarða sem heitir á ensku, með leyfi forseta, „Social Progress Index.“ Þar er nú ansi mjótt á mununum hjá Norðurlöndunum, þ.e. Noregur er þar vissulega efstur og svo Danmörk, Finnland, Sviss og svo kemur Ísland. Það munar afskaplega litlu á þessum efstu löndum sem segir okkur bara þá almennu sögu að Norðurlöndin standa mjög vel sem samfélög þegar kemur að því að meta ólíka þætti, ekki bara þjóðartekjur heldur alla hina félagslegu þætti, og það stafar auðvitað af samfélagsgerðinni. Ég veit ekki hvort það er áþreifanlegur munur á harðneskju lífsbaráttunnar í Noregi og á Íslandi en auðvitað búa Norðmenn ansi hreint ríkulega að auðlindum og það hefur gagnast þeim í þeirra lífsbaráttu.