154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hennar innlegg. Ég vil koma inn á það að hún sagði að það hefði ekkert verið bent á og ekki verið gerð athugasemd við þessa skýrslu um fátækt. Jú, ég gerði það, ég gerði athugasemd við hana og ég gerði það á þeim forsendum að það vantaði inn í hana. Ég reyndi að skýra það vel út og mig langar að spyrja hvort hún er ekki sammála mér um að kerfið okkar sé svo ótrúlega meingallað að við erum með 49.000 einstaklinga sem eru að fá kröfu um endurgreiðslu. Meðaltalið, sem segir okkur ekki neitt, er 164.000 kr. sem gera um 8 milljarða í heildina. Við vitum að nú er verið að gera svona skýrslu og það eru tekin launin þetta árið og það eru settir Gini-stuðlar inn í það og þá kemur þar niðurstaðan. Þetta er kannski ár sem einhver er við fátæktarmörk eða kominn upp fyrir þau vegna þess að hann hefur fengið aukatekjur. En ári seinna þarf hann kannski að borga 100.000 kr. á mánuði til baka. Ég hef jafnvel séð dreifingu yfir tvö, þrjú ár. Þannig að þarna er svakaleg skekkja. Þetta er alltaf þessi skekkja þegar verið er að meta, eins og með tíund og hækkanir og annað, að þessar skelfingar eru aldrei inni í þessu kerfi. Þær eru inni í Tryggingastofnun, þær dreifast víðar og þetta hefur áhrif, ekki bara á tekjur viðkomandi heldur líka út í skattkerfið, barnabætur. Við erum með svo flókið kerfi að þetta veldur keðjuverkandi skerðingum út um allt kerfið. Þetta er hvergi að finna í þessari skýrslu vegna þess að það er vonlaust einhvern veginn að ná þessum upplýsingum. Er ráðherra ekki sammála því að það þyrfti hreinlega að reyna einhvern veginn að ná tökum á þessu?