154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvarið. Ég þekki það bara af eigin raun að það er skelfileg staða þegar einstaklingar missa nærri allar tekjur Tryggingastofnunar í heilt ár eða lengur.

Annað sem ég vil taka upp og spyrja hvort ekki sé kominn tími til að við tökum á er þessi staðreynd hversu illa þetta fátæktarkerfi fer með konur. Ég hef bent á rannsókn í Bretlandi þar sem kemur fram hversu rosaleg áhrif fátækt hefur á lífslíkur kvenna. Ég segi fyrir mitt leyti að ég veit ekki hvernig þeirri rannsókn var háttað en, eins og ég segi, ef þú ert með stúlkubarn í dag í fátækt og það verður í fátækt það sem eftir er þá getur maður rétt ímyndað sér ástæðuna. Þegar þetta er farið að nálgast tíu ár, þá erum við að tala um síðustu tíu ár ævinnar sem eiga að vera bestu árin, þá er þetta ekki ásættanlegt. Við þurfum einhvern veginn að taka á þessu vegna þess að það er skelfileg staða ef við erum að missa fólk í bara einhverja sjúkdóma vegna þess að það hefur ekki efni á að fara eða einhverja hluta vegna að er svo innmúrað í fátækt að það leitar sér kannski ekki hjálpar við bara einföldum sjúkdómum vegna þess að það óttast kostnaðinn eða við vitum ekki hvernig andleg líðan þessara einstaklinga er. Við hljótum einhvern veginn að sjá til þess í þessu þjóðfélagi að enginn sé þannig að hann geti ekki leitað sér læknishjálpar, hann geti ekki fengið lyf. Það hlýtur að vera stefna líka, sérstaklega gagnvart konum, að þær geti leitað sér hjálpar.