154. löggjafarþing — 14. fundur,  12. okt. 2023.

Fátækt og samfélagslegur kostnaður, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór nú svo sem breytt yfir sviðið en í fyrsta lagi langar mig að nefna að eftir stóru kerfisbreytinguna 2016 á þeim þætti almannatryggingakerfisins sem snýr að eldri borgurum var ráðist í sérstaka aðgerð, svokallaðan félagslegan viðbótarstuðning, til að styðja sérstaklega við þau sem ekki eiga full réttindi í því kerfi. Þar voru konur mjög stór hluti vegna þess að þær höfðu verið heimavinnandi og ekki getað aflað sér lífeyrisréttinda. Þannig að það var brugðist við þessu með þessum félagslega viðbótarstuðningi.

Mig langar líka að nefna, af því að hv. þingmaður gerir hér að umræðuefni heilbrigðiskostnað, að það er auðvitað búið að vera að stíga stór skref allt frá árinu 2018 í að draga úr þeim kostnaði með því að draga úr kostnaði á heilsugæslu og draga sérstaklega úr kostnaði barna, öryrkja og aldraðra í heilbrigðiskerfinu. Markmiðið er auðvitað að við komumst á sambærilegan stað og Norðurlöndin þegar kemur að því að meta kostnað fólks við læknisþjónustu, því að við vorum langt yfir öðrum Norðurlöndum þegar þessi ríkisstjórn tók við. Nú stefnir í það að við náum þessu markmiði. Þá þarf auðvitað að vega það og meta hvað við gerum næst og hver verða forgangsmálin þegar við erum komin á par við önnur Norðurlönd. Eitt af því sem hefur verið rætt um í því er til að mynda bara ferðakostnaður fólks úti á landi til að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það þarf líka að vega og meta þau hámörk sem eru inni í kerfinu þegar kemur bæði að heilbrigðisþjónustu og lyfjakostnaði. Auðvitað var mikið framfaraskref líka stigið í því 2016 þegar þessi hámörk komu inn á sínum tíma. Það var nú önnur ríkisstjórn sem gerði það en síðan var farið í þessa markvissu niðurgreiðslu á kostnaði.

Þannig að ég tek undir með hv. þingmanni. Þetta er mikilvægt en við erum að stíga mikilvæg skref í þessu.