154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

álit umboðsmanns Alþingis og traust almennings á stjórnvöldum.

[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það er algjörlega rétt sem hún segir hér í sinni fyrirspurn hvað varðar þau sjónarmið sem ég fór yfir einmitt við hennar spurningu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um sjónarmið um hæfi. En ég vil ítreka það hér að ég byggði svör mín á þeirri ráðgjöf sem ég hafði fengið varðandi sjálfstæði stofnunarinnar.

Það liggur algerlega fyrir að þau sjónarmið eru ekki í takti við álit umboðsmanns Alþingis og mér finnst mjög mikilvægt að ítreka það hér að ég tel mjög mikilvægt að við tökum mið af því áliti hvað varðar framtíðarfyrirkomulag. Ég man meira að segja eftir minnisblaði sem kom frá skrifstofu Alþingis þar sem sérstaklega var ítrekað að Bankasýsla ríkisins hlyti að teljast sjálfstætt stjórnvald sem lyti ekki yfirstjórn ráðherra heldur sérstakrar stjórnar og það tengdist framkomu þeirrar stofnunar á opnum fundum, nefndarfundum Alþingis, þannig að mér finnst rétt að halda því til haga að það voru ólík sjónarmið uppi. Nú liggur álitið fyrir og það er mjög mikilvægt að við tökum mið af því í framhaldinu. Þetta er reyndar ekki nákvæmlega það sem hv. þingmaður var að spyrja að, en mér finnst rétt hins vegar að þetta komi fram hér.

Hvað varðar afsögn fjármálaráðherra og þá staðreynd að hann hefur nú tekið við nýju embætti utanríkisráðherra þá tel ég að hann hafi gert mjög skýra grein fyrir því að hann virði þetta álit. Ég vil minna á það að hæstv. fjármálaráðherra, fyrrverandi, hefur áður óskað eftir áliti Ríkisendurskoðunar, tekið ákvörðun um að birta kaupendalista og fleira sem hefur sýnt viðleitni til að axla ábyrgð á þessu máli. Með þessari ákvörðun tryggir hann að friður sé um störf fjármála- og efnahagsráðherra og fjármálaráðuneytis sem er lykilatriði (Forseti hringir.) og ég held ekki að það sé nein ástæða til að ætla að þetta mál sé eitthvað sem komi upp á síðari stigum (Forseti hringir.) enda liggur líka fyrir að það voru mjög ólík sjónarmið uppi um þessa spurningu sem umboðsmaður tekur á í áliti sínu.