154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

aðgerðir stjórnvalda til orkusparnaðar.

[15:39]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Nú er það mál manna að orkuskortur blasir við okkur á komandi árum verði ekkert að gert. Það er alveg ljóst að við þurfum að fara í fullkomin orkuskipti en það sem er minna rætt um í samfélaginu er til hvaða aðgerða við getum gripið til orkusparnaðar. Auðvitað þurfum við að auka framleiðslu orku og rafeldsneytis og við þurfum að uppfæra flutningskerfi raforku. En ef ég bara lít í eigin barm þá er ég óttalegur orkusóði og ég hef áhyggjur af því að margir landar mínir séu það líka. Orkunotkun okkar á jarðefnaeldsneyti, rafmagni og jarðhita á mann er með því mesta sem gerist í heiminum og er það kannski ekki óeðlilegt út frá legu landsins, veðráttu og nýtingu á endurnýjanlegri orkuauðlind, en sú orka er mjög ódýr miðað við löndin í kringum okkur.

Nú er það svo að ný raforkuspá Landsnets bendir til verulegrar aukningar á þörf og sama má segja um jarðvarmaspá Orkustofnunar sem sýnir að tvöfalda þarf orkuþörfina til 2060 bara ef horft er til heits vatns. Þó að það sé bæði eðlilegt og nauðsynlegt að við notum mikla orku hér á landi þá er mikilvægt að sóa henni ekki. Orkusparnaður og rétt orkunýting er því lykillinn í því sambandi.

Virðulegi forseti. Ég vil því spyrja hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra til hvaða aðgerða stjórnvöld eru að grípa til þess að stuðla að orkusparnaði hér á landi. Hvaða hvatar eru á teikniborðinu sem vert er að ræða á þessum tímapunkti?