154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[15:51]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að setja á dagskrá Alþingis sérstaka umræðu um þolmörk ferðaþjónustu. Ég tel fulla þörf á því að við ræðum þolmörk ferðaþjónustu hér á Alþingi enda er ferðaþjónustan ein af stærstu atvinnugreinunum á Íslandi og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar. Kannanir benda til þess að áhugi á Íslandi sem áfangastað sé mikill á erlendum mörkuðum og að ferðamönnum sem koma hingað til lands muni fjölga á næstu árum. Því er mikilvægt að gæta að því að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf og sé sérstaklega í sátt við náttúruna og samfélagið sitt.

Hv. þingmaður beindi fjórum spurningum til mín og mun ég veita svör við þeim. Í fyrsta lagi, varðandi hver þolmörk hinna mismunandi grunninnviða vegna ferðaþjónustu eru og hversu mikið álag er vegna ferðamanna miðað við þolmörk á heilbrigðiskerfið, lögreglu, björgunarsveitir, vegi og loftslagsmarkmið Íslands, vil ég byrja á að nefna að nú stendur yfir viðamikil vinna við aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030. Aðgerðaáætlunin byggist á grundvelli uppfærðrar stefnu í ferðaþjónustu sem segir að ferðaþjónusta á Íslandi skuli vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags, umhverfis og samfélagslegs jafnvægis. Í maí síðastliðnum skipaði ég sjö starfshópa og fól þeim að vinna að tillögum að aðgerðum sem eiga að ná utan um sjálfbærni og orkuskipti, samkeppnishæfni og verðmætasköpun, rannsóknir og nýsköpun, uppbyggingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónustu og menningartengda ferðaþjónustu. Starfshóparnir eru skipaðir öflugu fólki sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu hvert á sínu sviði og hef ég miklar væntingar til að niðurstaða vinnunnar verði sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi til framdráttar.

Þolmörk grunninnviða vegna ferðaþjónustu hafa snertifleti við viðfangsefni margra hópanna sem ég greindi frá hér áðan og eru til umfjöllunar og meðferðar þar. Þess ber að nefna að árið 2017 var ráðist í umfangsmikið þróunarverkefni sem ber heitið Jafnvægisás ferðamála. Markmið jafnvægisássins var að leggja mat á álag á innviði, efnahag, umhverfi og samfélag með tilliti til fjölda ferðamanna á Íslandi. Niðurstöður verkefnisins komu út árið 2019 og gáfu góða vísbendingu um stöðumynd af þolmörkum og áhrifum ferðaþjónustu á þeim tíma. Jafnvægisás ferðamála og notkun hans er einmitt til umfjöllunar í vinnu við aðgerðaáætlun ferðaþjónustunnar sem stendur nú yfir.

Virðulegur forseti. Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvernig hægt sé að stuðla að betri dreifingu ferðamanna vil ég undirstrika að í yfirstandandi vinnu er lögð áhersla á aðgerðir sem miðuðu að því að dreifa ferðamönnum víðar um landið og yfir allt árið. Að því sögðu hefur nú verið gripið til ýmissa aðgerða til að stuðla að betri dreifingu ferðamanna og ætla ég að nefna þrjá þætti:

Í fyrsta lagi markmið þeirra opinberu sjóða sem veita fjármagn í uppbyggingu ferðamannastaða að stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið. Samanlagt hafa Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum varið um 1,5 milljörðum á ári undanfarin ár í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum og gert það að verkum að áfangastaðir ferðamanna á Íslandi eru almennt vel í stakk búnir til að taka á móti fjölda ferðamanna.

Í öðru lagi heyrir flugþróunarsjóður undir mitt ráðuneyti en hann hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði og með því stuðla að dreifingu ferðamanna um allt landið.

Í þriðja lagi er ráðuneytið með samning við Íslandsstofu um markaðssetningu og kynningu á Íslandi sem áfangastað gagnvart erlendum mörkuðum. Markaðssetning Íslandsstofu er í samræmi við framtíðarsýn til ársins 2030 og stuðlar að betri dreifingu ferðamanna um landið allt árið.

Mig langar að leggja áherslu á það í þessu innleggi mínu að það er gríðarlega mikilvægt að við metum það nákvæmlega hver þolmörkin eru og sú vinna sem er núna í gangi í ráðuneytinu er mjög metnaðarfull og gengur einmitt út á þetta. Ég mun ekki geta svarað því hér og nú, af því að þessari vinnu er ekki lokið og er í raun og veru grasrótarfagvinna sem mun skila tillögum til mín sem ráðherra, en meginmarkmiðið er sjálfbær ferðaþjónusta og að hún sé sjálfbær gagnvart umhverfi og samfélaginu.