154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka málshefjanda kærlega fyrir þessa umræðu. Ég tel að hún sé brýn og brýnt einmitt að ræða þetta í samhengi við þolmörk. Mikil fjölgun ferðamanna á hvern íbúa hefur verið allt frá árinu 2013, með hléi vitaskuld í heimsfaraldrinum. Það er staðreynd að innviðir þjóðfélagsins geta illa staðist mikinn og slíkan vaxtarhraða til lengri tíma. Þessar mikilvægu atvinnugreinar þarf þess vegna að hugsa og skipuleggja, og skipuleggja í samhengi við annað, því ferðaþjónustan hefur stærðar sinnar vegna mikil áhrif á innviði. Hún er, eins og við þekkjum, stór hluti þenslunnar, hún er að baki hagvextinum og á verðbólgutímum þarf að hugsa þetta og það þarf að þora að tala um þetta.

Á fyrsta ársfjórðungi 2023 fjölgaði landsmönnum um rúm 3.000. Reyndar er staðan sú að fólksfjölgun í ár er sú mesta frá 1734 og stærsti áhrifavaldurinn þar er vöxtur ferðaþjónustunnar; fólk sem starfar í ferðaþjónustunni beint og síðan fólk sem starfar í tengdum greinum eins og í byggingariðnaðinum og fleiri tengdum greinum. Álagspunktarnir eru því víða og þess vegna er nauðsynlegt að heyra skýrari stefnu, skýrari tón um æskilegan vöxt.

Markmiðið á að vera vaxtarhraði sem gefur mestan ávinning fyrir þjóðarbúið að teknu tilliti til jákvæðra þátta sem sannarlega eru til staðar sem og neikvæðra áhrifa, því að eitt er umfang og velta en annað er verðmætasköpun. Ég er ekki viss um að svarið geti bara verið að fá fleiri ferðamenn. Við þurfum að ræða heildarmyndina, samspil greinarinnar við náttúru en ekki síður við innviði, álag á vegi, álag á lögreglu, álag á heilbrigðiskerfið og síðan þá staðreynd að ferðaþjónustan er láglaunagrein og allt skiptir þetta máli.

Það er tómt mál að ætla að tala um húsnæðisuppbyggingu nema því fylgi stefna um æskilegan vöxt ferðaþjónustunnar. Markmiðið um 35.000 íbúðir á næsta áratug (Forseti hringir.) þarf ekki bara að skoða í samhengi núna við áhrif vaxtahækkana heldur jafnframt við það hver stefnan er um vöxt þessarar greinar.