154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:25]
Horfa

Elva Dögg Sigurðardóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur átt sér stað í þessum málum hér á undan. Það er stundum talað um ferðaþjónustuna eins og eitthvert vandræðabarn en ferðaþjónustan hefur fært okkur svo margt frábært. Sjáum bara alla veitingastaðina og afþreyinguna sem nú er í boði sem var ekki áður. Þessir staðir hefðu ekki rekstrargrundvöll ef ekki væri fyrir ferðaþjónustuna en það kallar á innviði hjá sveitarfélögum. Í því ljósi vil ég ræða hér sérstaklega gistináttaskattinn svokallaða. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um gistináttaskattinn og þar er rætt um að sveitarfélögin ættu að njóta góðs af gjaldtökunni. Lengi hefur verið rætt um að þetta sé alltaf markmiðið, en svo gerist ekkert.

Af hverju skiptir máli að skatturinn renni til sveitarfélaga, herra forseti? Svona stórum atvinnuvegi fylgja alls konar verkefni, eins og fjölgun veitingastaða, sem þarfnast innviða, og fleiri hótel kalla á innviði. Ferðamannastaðir sveitarfélaganna þurfa styrkingu. Fólki sem vinnur við ferðaþjónustuna fjölgar líka. Því fylgir ýmiss konar þjónusta og aukin þjónusta kostar peninga, virðulegi forseti.

Skýrsla starfshóps um auknar tekjur sveitarfélaga af ferðamönnum, sem var unnin hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fjallaði um að þótt vissulega væru sum sveitarfélög með mun fleiri gistinætur en önnur þýddi það ekki endilega öll þjónustan væri þar og því væri mikilvægt að gistináttagjaldinu væri skipt á sanngjarnan hátt. Í skýrslunni er nefnt að mögulega færu tveir þriðju gjaldsins til sveitarfélagsins en hinn hlutinn færi í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Mér þykir það ekki óskynsamlegt.

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar kemur fram að nú eigi að taka upp aftur gistináttaskatt, sem er vel, en hvergi kemur fram að hann skuli renna inn í sveitarfélögin, þó að það standi í stjórnarsáttmála. Ég verð því að spyrja: Hvers vegna er það?