154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

Þolmörk ferðaþjónustunnar.

[16:32]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Hún er mjög gagnleg. Eins og kemur fram í máli hv. þingmanns er mjög mikilvægt að við höfum mjög góða mynd af þolmörkum greinarinnar og ég tek heils hugar undir það. Sú stefnumótun sem við erum að fara í núna er af svipuðum toga og við gerðum fyrir kvikmyndirnar, fyrir tónlistina, fyrir myndlistina og bara þær atvinnugreinar sem ég sem ráðherra hef borið ábyrgð á.

Ég bið þingheim um að vera svolítið þolinmóðan vegna þess að þetta er mjög stórt verkefni. Ég hef hins vegar fulla trú á því hvernig við erum að nálgast þetta. Við erum að skoða aðgangsstýringar og mér fannst mjög gott sem kom fram í máli hv. þm. Bergþórs Ólasonar um Louvre og hvernig þar koma 7,5 milljónir. Þessu er stýrt og það er það sem við erum að skoða líka, þessar aðgangsstýringar, huga að þeim í ákveðnum þrepum. Það sem mér finnst mjög mikilvægt líka þegar það er farið að reyna á þanþol til að mynda heilbrigðiskerfisins, þá þurfum við auðvitað að bregðast við. Við getum ekki misboðið fólki með of hröðum vexti. Ég fullvissa þingheim um að það er verið að huga að því.

Nokkrir þættir: Orðsporsáhættan. Orðspor Íslands er mjög gott. Við skorum á þeim mælikvarða sem mælir þetta um 82 stig. Apple, sem er eitt verðmætasta vörumerki veraldar, er í kringum 50. Fólkið sem rekur íslenska ferðaþjónustu er því sannarlega að gera frábæra hluti. Svona alveg í lokin þótti mér sérstaklega vænt um það þegar var verið að tala um íslenska matargerð. (Forseti hringir.) Hún hefur svo sannarlega þróast og ég tel að hún verði (Forseti hringir.) einn af hornsteinunum fyrir áframhaldandi gæði íslenskrar þjónustu og ferðaþjónustu.