154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Slysasleppingar í sjókvíaeldi.

[14:15]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu. Hún er tímabær og hún er skýr og vel afmörkuð. Til þess að svara þeim spurningum sem koma fram í máli hv. þingmanns þá vil ég byrja á því, svona með almennum hætti, að geta þess að frá því að ég hóf störf í matvælaráðuneytinu hef ég lagt áherslu á að tryggja að eftirlit, regluverk og stefnumótun í fiskeldi yrði sinnt af festu. Eitt af mínum fyrstu verkum var einmitt að biðja Ríkisendurskoðun að framkvæma úttekt á framkvæmd laga um fiskeldi. Í niðurstöðum þess var dregin upp dökk mynd af stjórnsýslu greinarinnar. Stefnumótun hefur svo staðið yfir í málaflokknum, byggt á þeirri skýrslu en einnig skýrslu Boston Consulting Group um tækifæri í lagareldi í heild fyrir Ísland. Þá hafa á mínum vegum verið tveir starfshópar, annar um strok og hinn um sjúkdóma, sem hafa skilað tillögum sem eru ýmist í framkvæmdafasa eða í stefnumótunarhlutanum. Ég kynnti stefnumótun í fiskeldi nýlega, sem hefur fengið góðar viðtökur, eins og hv. þingmaður hefur væntanlega fengið upplýsingar um. Þá hefur einnig verið samþykkt af þinginu að veita Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun auknar fjárheimildir vegna sjókvíaeldis sem nema um 2,2 milljörðum kr. næstu fimm árin. Það fjármagn var ákveðið og það veitt m.a. vegna þeirra athugasemda sem komu fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Matvælastofnun hefur nú þegar, fyrir tíu dögum, auglýst sex stöðugildi eftirlitsmanna og dýralækna sem sinna munu eftirliti.

Þingmaðurinn spyr að því hvernig ráðherra hyggist styrkja eftirlit áður en farið er í lagabreytingar. Í því samhengi vil ég nefna að Matvælastofnun hefur þegar ráðist í aðgerðir sem ekki krefjast lagabreytinga en hefur verið bent á í áðurnefndum úttektum, svo sem breytingar á verklagi varðandi eftirlit með stroki, t.d. með því að vakta fóðurmagn sem fer í kvíar og með því að leggja meiri áherslu á innra eftirlit. Matvælastofnun hefur einnig fjárfest í tveimur neðansjávardrónum sem verða nýttir við sérstakt eftirlit. Auk þessa eru þær ráðningar sem ég nefndi hér áðan.

Þá spyr hv. þingmaður um viðurlög við því að farið sé á svig við reglur. Hvað varðar viðurlög við stórum sleppingum og takmörkuðu innra eftirliti, eins og hafa verið brögð að, þá eru síðustu sleppingar, sem hv. þingmaður vísaði sérstaklega til, til meðferðar á viðeigandi stöðum í stjórnsýslunni og ég get ekki tjáð mig um þær sérstaklega. Þó get ég sagt að viðurlög verða til endurskoðunar í því frumvarpi sem verður mælt fyrir hér á þinginu síðar í vetur og umfjöllun við þá frumvarpsvinnu sem fram undan er. Það er mín skoðun að engin frávik eigi að vera án afleiðinga. Í drögum að stefnu um uppbyggingu og umgjörð lagareldis er t.d. lagt til að framleiðsluheimildir þeirra rekstraraðila sem eiga fisk sem finnst á stöðum þar sem hann á ekkert erindi verði skertar.

Þingmaðurinn spyr líka um það hvernig ég hyggist koma til móts við áhyggjur af erfðablöndun. Þar er mikilvægast auðvitað að fyrirbyggja strok. Eldisfiskur á að vera í kvíum en ekki utan þeirra. Eins og ég hef farið yfir þá verður það gert. Einnig vil ég þó nefna þá staðreynd að því öflugri sem innlendir stofnar eru, því ólíklegra er að strokatburðir hafi neikvæð áhrif á stofnana. Það er bæði flókið og tæknilegt að fara að ræða erfðafræði hér á þinginu en ég vil þó segja þetta: Auknum fjármunum verður varið í eftirlit og rannsóknir, árvökum verður fjölgað, sérstök verkefni verða sett af stað til að meta ástand villtra laxastofna og bæta veiðistjórnun stofna í samræmi við markmið Alþjóðlega hafrannsóknaráðsins og Laxaverndunarstofnunarinnar, sem við raunar hyggjumst ganga inn í aftur en höfum ekki verið þar aðilar til skamms tíma. Laxastofninum við Norður-Atlantshaf hefur farið aftur um langt skeið og því er það meira en tímabært að leggja áherslu á aðgerðir til að snúa við þeirri þróun. Það verkefni er þó ekki átaksverkefni heldur til langs tíma.

Að endingu vil ég fjalla um áhættumat erfðablöndunar og áhyggjur af erfðablöndun í laxveiðiám. Samkvæmt núverandi löggjöf skal framkvæma áhættumat svo oft sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Í kjölfar stroksins í Patreksfirði og þeirrar upplýsingaöflunar sem hefur átt sér stað í kjölfar þess hefur Hafrannsóknastofnun dregið til baka þá tillögu að áhættumati sem stofnunin hafði lagt fram, sem mér þykir þá benda til þess að lagabókstafurinn og framkvæmd hans sé að virka eins og til var ætlast og nú bíðum við þeirrar niðurstöðu. Áhættumat erfðablöndunar er, líkt og viðurlög við svokölluðum slysasleppingum, til endurskoðunar og umfjöllunar við frumvarpsvinnuna sem fram undan er. Stefnumótunin hefur fengið góðar viðtökur. Ég hlakka til að geta mælt fyrir málinu síðar í vetur og þá mun hv. atvinnuveganefnd taka málið til umfjöllunar. Það er mikið í húfi að koma þessum málum á skýran og öruggan grunn.