154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

húsaleigulög.

28. mál
[15:20]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér í annað sinn fyrir frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, réttarstaða leigjenda íbúðarhúsnæðis og leigubremsa. Flutningsmenn með mér á frumvarpinu er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins; Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Það skal tekið fram að öllum þingheimi var boðið að vera meðflutningsmenn á þessu frumvarpi en Flokkur fólksins stendur sem sagt einn að því. Ég hef hugsað mér að fara lítillega yfir frumvarpið:

„1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. laganna:

a. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi íbúðarhúsnæði verið áður til leigu teljast þá líkur á því að sú leigufjárhæð sem áður gilti sé sanngjörn og verður sá sem vefengir það að sýna fram á annað.

b. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að hækka fjárhæð leigu íbúðarhúsnæðis oftar en á 12 mánaða fresti og er þá að hámarki heimilt að hækka hana í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs á tímabilinu.

2.gr.

Við 1. mgr. 52. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi leigusali vanrækt þá skyldu sína skv. 11. tölul. 6. gr. að upplýsa í leigusamningi um forgangsrétt leigjanda framlengist tilkynningarfrestur samkvæmt ákvæði þessu fram að lokum uppsagnarfrests eða umsamins leigutíma.

3. gr.

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi: Fjárhæð leigu á íbúðarhúsnæði skal ekki taka breytingum til hækkunar til ársloka 2025, þrátt fyrir samningsskilmála um verðtryggingu eða aðrar verðbreytingar. Við framlengingu, endurnýjun og gerð nýrra leigusamninga um íbúðarhúsnæði sem taka gildi fyrir árslok 2025 er óheimilt að hækka fjárhæð húsaleigu sama íbúðarhúsnæðis frá því sem fyrir var umfram 2,5%.“

Af hverju skyldi það vera 2,5%? Það eru jú neðri vikmörk Seðlabankans, verðbólguvikmörk Seðlabankans. Við höfum hugsað okkur að fylgja þeim.

Í 4. gr. segir einfaldlega að lögin öðlist þegar gildi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að frumvarp þetta var áður lagt fram á 153. löggjafarþingi (898. mál) og er nú lagt fram að nýju óbreytt, að því undanskildu að dagsetningar hafa verið uppfærðar. Þrjár umsagnir bárust um frumvarpið á 153. löggjafarþingi, frá Öryrkjabandalagi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp og Hagsmunasamtökum heimilanna. Allir umsagnaraðilar lýstu yfir stuðningi við framgöngu málsins. Það er algjört grundvallaratriði í öllum siðmenntuðum samfélögum að fólk hafi þak yfir höfuðið. Réttur til viðunandi lífskjara, þar á meðal húsnæðis og batnandi lífsskilyrða, eru grundvallarmannréttindi sem njóta verndar félagsmálasáttmála Evrópu, alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Á Íslandi hefur svokölluð séreignarstefna lengst af verið ríkjandi þar sem flestir gera sitt besta til að reyna að eignast húsnæði til eigin búsetu, en leigumarkaðurinn hefur fyrir vikið verið lítill og vanþróaður.

Ég ætla ekki að fara djúpt í sögu leigumarkaðarins en ætla hins vegar að vísa til þess að ég held að það fari ekki fram hjá neinum hvernig raunveruleg þróun hefur verið á leigumarkaði. Það er ekki bara á Íslandi heldur er þessi tilhneiging að skjóta rótum hér í löndunum í kringum okkur líka. Það er ljóst að auðmenn, markaðurinn, kapítalisminn vill koma meira og minna öllum fasteignum fólks í hendurnar á græðgisvæddum leigufélögum sem síðan geta farið með fólk að eigin geðþótta og hækkað leiguna svo gjörsamlega út úr öllu korti að einstaklingar sem eru frekar með lök kjör standa höllum fæti fjárhagslega og hreinlega hafa ekki bolmagn til að greiða húsaleigu. Það kveður svo rammt að þessu að einstaklingar á berstrípuðum almannatryggingalaunum þurfa að greiða meira en 100% virðulegi forseti, af innkomu sinni. Hvernig getur nokkur einstaklingur eða nokkur fjölskylda framfleytt sér þegar hún þarf að greiða meira heldur en alla innkomuna í húsaleigu? Það er ekki hægt. Hvernig fara þau þá að? Jú, með stuðningi, með lántöku, með stuðningi frá fjölskyldu, vinum, foreldrum, ömmum og öfum, með því að standa í röðum við hjálparstofnanir og biðja um mat á diskinn fyrir börnin sín því að það er grundvallaratriði að hafa þak yfir höfuðið. Það er grundvallaratriði þrátt fyrir að það séu sennilega á fjórða hundrað einstaklinga á götunni á Íslandi í dag. Það er alltaf spurning um það hvað eru margir sem lifa veturinn af og hvað það eru margir sem gera það ekki.

Hér í greinargerð eru ýmsar skýringar á því hvað í rauninni greinarnar í frumvarpinu okkar eru að segja. Í stuttu máli, á hreinni og klárri íslensku, segja þær: Ef þú ert leigutaki og hefur verið að leigja húsnæði í einhvern X tíma þá getur leigusalinn ekki allt í einu vaðið inn og sagt þér upp leigunni á þeim forsendum að hann ætli að leigja íbúðina einhverjum öðrum sem ætlar að borga meira fyrir hana. Leigutaki hefur algjöran forgangsrétt á þessu leigða húsnæði svo framarlega sem það eigi að haldast í leigu áfram. Auðvitað getur enginn bannað leigusalanum að hætta að leigja húsnæðið en í mörgum tilvikum eru þetta þessi græðgisvæddu leigufélög sem engu eira. Það kveður svo rammt að því að fyrir jólin í hittiðfyrra þá hækkaði Alma leigufélag húsaleigu öryrkja, konu sem allir vissu nú um því þetta fór hátt í fréttum, sem var þegar að greiða um 250.000 kr. á mánuði í húsaleigu, á einu bretti um 75.000 kr. Kviss bang búmm, bara upp í 325.000 kr. takk, góða kona, við ætlum að hækka leiguna í það og ef þú getur ekki staðið undir því þá verður þú bara að pakka saman og pilla þig. Þessi einstaklingur hefði þurft að fá hækkun á launum sínum frá almannatryggingum um 117.000 kr. á mánuði ef hann hefði átt að geta tekið á sig þessa 75.000 kr. hækkun. Það mætti frjósa fyrr á mjög hlýjum stað heldur en að við sjáum 117.000 kr. hækkun almannatrygginga. Það væri stórkostlegt kraftaverk. En eitthvað var dregið úr þessu, fjölmiðlar og sú athygli sem málið fékk varð þess valdandi að leigufélagið Alma dró aðeins úr þessu sparki, þessu höggi. En það kom nú samt sem áður fram síðar hjá framkvæmdastjóranum að það yrði að hækka meira, þeir væru ekki að hækka nóg. Þeir græða ekki nóg.

Ástandið á húsnæðismarkaði er þungt um þessar mundir og það vita það allir og það einkennist öðru fremur af skorti á framboði á húsnæði. Verðbólga hefur náð hæðum sem ekki hafa sést síðan í efnahagshruninu 2008. Þegar við erum að tala um skort á húsnæðismarkaði þá liggur það náttúrlega á borðinu samt sem áður að það er nóg framboð á fasteignum til kaupa akkúrat núna og hafa ekki fleiri fasteignir verið til sölu í langan tíma af því að það var algjör skortur á húsnæði eins og við vitum á fasteignamarkaði. En hefur eftirspurnin eftir þessu húsnæði eitthvað minnkað fyrst þessar eignir seljast ekki strax? Nei, hún hefur ekki minnkað. En einstaklingar sem hafa þörf fyrir að eignast húsnæði og ætla virkilega að leggja í þann leiðangur treysta sér einfaldlega ekki til að skuldsetja sig í því brjálæði sem geisar nú í efnahagsmálum hér á landinu, í óðaverðbólgu og okurvöxtum. Það treystir sér enginn venjulegur einstaklingur til að taka það á sig.

Við sjáum alveg hvert stefnir með þá þróun sem er að verða núna hjá þeim sem þegar eiga húsnæði ef stjórnvöld grípa ekki í taumana og stöðva þá óheillaþróun, þessa snjóhengju svokallaða sem mun falla á fasteignaeigendur núna eftir áramótin og fram á mitt næsta ár. Á fasteignaeigendum sem skulda þessi svokölluðu óverðtryggðu lán með breytilegum vöxtum mun skella slík og þvílík stökkbreyting á greiðslubyrði að hún mun í það minnsta sennilega tvöfaldast. Við höfum mýmörg dæmi um það og við höfum fengið að líta reikninga þar að lútandi þannig að það fer ekkert á milli mála að þróunin er í þá átt. Þá kemur seðlabankastjóri og hvetur fólk til að hella í sig hinum eitraða kokteil verðtryggingar sem einfaldlega verður þess valdandi að sá litli eignarhluti sem einstaklingurinn hefur verið að spara fyrir og berjast fyrir að eignast í fasteigninni ést upp á verðbólgubálinu einn, tveir og þrír. Það tekur ekki langan tíma að eyða honum upp. Ekki nóg með það heldur endar þetta með því að afborganirnar á verðtryggðu lánunum, sem áttu að hjálpa en lengja einungis í hengingarólinni, verða hærri innan fárra ára heldur en það sem fólk var að sligast undan þegar það hraktist í verðtryggðu lánin.

Þannig að þetta er ein stefna og aðeins ein, að einkavæða allan húsnæðismarkaðinn og gera fólki ókleift að eiga þak yfir höfuðið án þess að vera á leigumarkaði. Þetta fólk mun missa fasteignir sínar innan X ára þótt það hafi reynt að flýja í faðm verðtryggingarinnar. Það mun missa fasteignir sínar, það liggur algjörlega á borðinu, ef ríkisstjórnin gyrðir sig ekki í brók og fer að stíga inn í nákvæmlega þann darraðardans sem hún er algerlega með í fanginu.

Við verðum bara að segja það sem við höfum sagt svo oft áður í Flokki fólksins úr þessum æðsta ræðustóli landsins: Það er mannanna verk hvernig staðan er. Það má algjörlega skrifa þetta á óstjórn í hagstjórn samfélagsins, algera óstjórn sem hefur ríkt hjá þessari ríkisstjórn. Hún hefur horft á hlutina gerast, hún hefur horft á gaddavírana ganga lengra og lengra inn í fjölskyldurnar án þess að stemma stigu við því. Hún hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að reyna að reisa einhverjar varnargirðingar utan um það sem koma skal. Við skulum sjá hvað verður.

Ég mælti ekki aðeins fyrir þessu frumvarpi um leiguþak og leigubremsu, sem ég er að mæla fyrir hér, í vor sem leið heldur mælti ég einnig og við í Flokki fólksins fyrir breytingartillögu við húsnæðisfrumvarp innviðaráðherra þar sem við lögðum til að það yrði ráðist í þessar framkvæmdir strax. Það er rétt tæpt ár síðan. Mikið væri nú landslagið breytt og mikið væri það öðruvísi ef það hefði verið gert og öllum góðum málum sem við erum að mæla hér fyrir væri ekki hreinlega sópað út af borðinu og í rauninni ekkert verið að velta þeim fyrir sér. Nú sitjum við hér í þingsalnum, ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson og virðulegur forseti og í hliðarherbergjunum sitja tveir hv. þingmenn auk okkar þannig að áhuginn fyrir því sem hér er verið að leggja fram er lítill sem enginn.

Við höfum líka séð þá þróun sem hefur orðið hér á fasteignamarkaði með tilkomu allra þeirra hælisleitenda sem hafa sótt okkur heim og óskað eftir að fá alþjóðlega vernd. Það eru um 3.000 einstaklingar sem Vinnumálastofnun hefur þurft að útvega húsnæði. Maður veltir fyrir sér: Ef stjórnvöld ætla ekki að fara að verða duglegri að byggja — því það tekur tíma, þetta er ekki eins og töfradísin Dísa í flöskunni sem bara smellir fingrum og þá bara rísa upp þúsundir fasteigna. Svoleiðis gerist það ekki. Það er ekki nóg að koma hér upp og segja: Ég ætla að sjá til þess að stjórnvöld byggi 30.000 íbúðir á næstu tíu árum. Það er ekki nóg. Það er svo langur vegur frá því að það sé nóg. Það er stórkostlegur skortur á íbúðarhúsnæði og það hefur verið vitað í mörg ár. Í mörg ár hefur verið ljóst í hvað stefndi, en var eitthvað gert í því? Nei. Sú ríkisstjórn sem hér hefur setið í sex ár hefur lítið sem ekkert gert í því nema talað og malað og malað. Þetta gengur, virðulegi forseti, einfaldlega ekki upp og það sem er verið að gera gengur allt of hægt. Við þurfum að taka á þessu núna.

Þetta frumvarp er að verja leigutaka, verja þá sem eru á leigumarkaði og fá ekki rönd við reist ofbeldi leigusala sinna oft á tíðum þegar verið er að ryðja inn hækkun á leigunni svo tugþúsundum króna skiptir á milli mánaða. Við höfum verið að berjast fyrir því að leigan verði aldrei hækkuð til ársins 2025 umfram nýja leigusamninga sem mættu þá hækka í mesta lagi frá fyrri samningi um 2,5%, neðri vikmörk verðbólguviðmiða Seðlabankans. Við höfum séð, eins og segir t.d. í skýringum við 3. gr., að verðbólgan hefur verið óvenjumikil að undanförnu og útlit er fyrir að hún verði þrálát með tilheyrandi áhrifum á fjárhæð leigu samkvæmt verðtryggðum húsaleigusamningum. Jafnframt hefur borið á hækkunum talsvert umfram verðlagsbreytingar í framlengingu eða við endurnýjun samninga um leigu íbúðarhúsnæðis. Þess vegna erum við að leggja það til að við húsaleigulög bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að leigufjárhæð verði ekki hækkuð fyrir árslok 2025 og enn fremur að á því tímabili verði óheimilt að hækka fjárhæð leigu við framlengingu á nýjum samningum umfram 2,5%.

Þannig að við segjum hér: Rífum í bremsuna, tökum utan um fólkið okkar, fólki sem hefur jafnvel verið þrýst og þvingað út á leigumarkað sem það hefur bara yfir höfuð ekki kært sig um að vera á. Stór hluti þessa fólks er hluti þeirra 12.000–15.000 fjölskyldna sem voru sviptar eignum sínum í kjölfar efnahagshrunsins 2008, stór hluti af þessum fjölskyldum.

Svo verðum við líka að átta okkur á því hvernig landslagið er því miður hér. Við sjáum í kringum okkur vexti sem eru í engum takti við og komast ekki nálægt þeim okurvöxtum sem er verið að hlaða hér upp og skella á íslenskan almenning. Við getum litið til frænda okkar í Færeyjum. Vaxtaprósentan hjá þeim er svona einn þriðji til einn fjórði af því sem við megum þola hér.

Ég segi: Rífum í bremsuna, virðulegi forseti. Hjálpum fólkinu að hafa öryggi, hafa tryggt þak yfir höfuðið. Til þess erum við hér sem velferðarríki, velferðarsamfélag, kennum okkur við réttarríki. Að sjálfsögðu eigum við að tryggja öllum fæði, klæði, húsnæði og heilbrigðisþjónustu. Þetta eru grundvallaratriði sem við verðum að taka utan um. Þetta eru grundvallaratriði fyrir allt samfélagið í heild sinni. Komum í veg fyrir okurleiguhækkanir og rífum í bremsuna.

Það er líka annað sem ég hefði viljað nefna síðast en ekki síst og skiptir miklu máli, þ.e. hvernig þessi græðgisvæddu leigufélög urðu jafnvel til, þau keyptu í hundraðavís og í stórum kippum íbúðir af Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður var jafnvel með fyrirgreiðslu fyrir græðgisvædd leigufélög til þess að þau gætu keypt upp fasteignir sem fólkið átti, sem var borið út á götu í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Hvers lags samfélag er það, virðulegi forseti, sem kemur svona fram við þegna sína, sem kemur svona fram við fólkið í landinu? Það er alla vega ekki samfélag sem ég er stolt af að tilheyra. Ég er ekki stolt af stjórnvöldum sem leyfa slíku að gerast. Þau geta hér tekið utan um þetta frumvarp Flokks fólksins um leigubremsu og leiguþak, sem engir aðrir þingmenn eru með okkur á þrátt fyrir að hafa verið boðið það. Þau geta tekið utan um þetta frumvarp ef þau vilja sýna vilja í verki og það væri ekki slæmt veganesti inn í komandi kjarasamninga í haust, ekki slæmt veganesti. Það væri góður leikur.

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan óska eftir því að frumvarpið verði nú sent til hv. velferðarnefndar.