154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

húsaleigulög.

28. mál
[15:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp Flokks fólksins um breytingu á húsaleigulögum, um réttarstöðu leigjenda og leigubremsu. Við erum að gera þetta núna þann 17. október sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt. Því miður verður að segjast alveg eins og er að það er ekki mikill áhugi fyrir þeim degi hér í þessum þingsal nema hjá Flokki fólksins, sem var hreinlega stofnaður í þeim tilgangi að útrýma fátækt.

Það er sorglegt til þess að vita að maður skuli fá ítrekað pósta og upplýsingar frá fólki sem spyr í örvæntingu sinni hvað það geti gert þegar leiga þess hækkar um 60.000 kr., þegar leiga fer úr 260.000 í 320.000 kr. og viðkomandi er kannski með útborgaðar 310.000 kr. Það sjá það allir að það gengur ekki upp. Viðkomandi getur ekki haldið húsnæði sínu. Síðan fær maður upplýsingar frá einstaklingum sem eru að reyna að finna sér húsnæði og leggja allt undir til að geta fengið það vegna þess að við vitum að það er númer eitt, tvö og þrjú á Íslandi að hafa húsnæði. Það er ekki gerlegt að vera án þess og hvað þá með börn. Síðan þegar fólk finnur sér húsnæði þá þarf það kannski að leggja fram hundruð þúsundir króna í tryggingu. Þessi markaður er skelfilegur. Þeir sem hafa reynt að spyrna við og reyna að byggja upp leigumarkað þar sem leigan er sanngjörn — það gengur því miður hægt, allt of hægt. Við sjáum biðlista, sérstaklega hjá öryrkjum og þeim sem eru verst staddir í þessu þjóðfélagi, og þann áhuga sem er á að komast í leigufélög sem verkalýðshreyfingin, VR og fleiri eru með. En betur má ef duga skal.

Það er gjörsamlegt ófremdarástand og einstaklingar sem eru að leigja þarna úti og hafa enga tryggingu fyrir því að leigan þeirra hækki ekki um tugi þúsunda — hvernig eiga þeir að lifa af? Þegar einhver er búinn að tryggja sér húsnæði og er að borga leigu sem fer langt upp í að vera nær allt sem viðkomandi fær í lífeyrislaun, þá er ástandið orðið slæmt. Þá á fólk ekki annarra kosta völ en að borga húsnæðið og vona hið besta en flestir eru þá komnir í þá aðstöðu að þeir þurfa að leita til hjálparsamtaka um fæði og klæði fyrir sig og börnin sín. Það er auðvitað gjörsamlega ömurlegt ástand að við skulum vera með svoleiðis stöðu.

Svo er líka ótrúlega óskammfeilið þegar talað er um þá sem hafa það verst í þessu samfélagi okkar og lifa á örorkubótum og ríkisstjórnin hvað eftir annað hælir sér af því hversu mikið hún hefur hækkað hjá þeim, alveg gífurlega. Samt er þetta fátækasta fólkið og samt hefur hún ekki á nokkurn hátt náð að hækka þá sem þurfa yfir fátæktarmörk. Meira að segja er staðan sú að þeir sem hafa alla vega átt húsnæði eru ekkert öryggir í sínu húsnæði. Það hlýtur að vera eitthvað undarlegt kerfi þegar Tryggingastofnun ríkisins getur boðið ofan af öryrkja húsið bara út af 590.000 kr. skuld og viðkomandi getur ekki einu sinni varið sig. En sem betur fer, umboðsmaður Alþingis segir að þetta sé ólöglegt. Landsréttur segir að þetta sé ólöglegt. Við vitum að fatlaður einstaklingur var borinn út af sýslumanni á Suðurnesjum sem sýnir okkur hversu mikil harka þetta er. Við vitum líka af fólki sem reyndi að bjarga sér, til þess að eiga eitthvert líf, og ákvað að fara bara og leigja í Laugardalnum og vera þar í hjólhýsi eða húsbíl. En það mátti ekki heldur og því fólki var nú bara dembt í einhverja gryfju langt út úr öllu og látið hírast þar og ég hef ekki heyrt hvort það hafi komist þaðan enn þann dag í dag. Þetta sýnir hversu ömurlegt þetta er og hversu ömurlega ríkisstjórnin er að standa sig í þessum málum.

Svo er annað sem er eiginlega furðulegt í þessu samhengi, miðað við það að við buðum öðrum flokkum að vera á þessu máli, að það skuli enginn hafa séð sóma sinn í því að styðja þetta mál. Samt hafa sumir það á sinni stefnuskrá að koma á leigubremsu en einhvern veginn vilja þeir ekki sjá leigubremsu í húsaleigulögum frá Flokki fólksins. Það hlýtur að vera skrýtin pólitík að neita því bara vegna þess hverjir eru með málið. En sem betur fer höfum við í Flokki fólksins tekið allt aðra afstöðu. Við styðjum góð málefni og okkur er sama hvaðan þau koma. Við myndum styðja hvern einasta flokk með ráðum og dáð sem tæki sig til og vildi berjast fyrir því að útrýma fátækt. Ég tala nú ekki um að ef við hefðum einhverja hér í þingsal á þessum alþjóðlega baráttudegi gegn fátækt sem hefðu komið hingað upp í ræðustól til að berjast með okkur.

Við vitum hverjar afleiðingarnar eru af fátækt. Við vitum að húsnæði er stærsti liður í útgjöldum hverrar fjölskyldu, hvort sem það er í eigu eða leigu. Ég hef meira að segja orðið var við það að núna þegar fólk er að reyna að komast út úr gífurlega hárri leigu sem það ræður ekki við, t.d. öryrki, og sækir um hlutdeildarlán og sýnir jafnvel fram á það að með hlutdeildarláni standi það mun betur og geti mun betur framfleytt sér vegna þess að þá lækkar greiðslubyrðin stórlega, þá fær viðkomandi samt nei. Það er sagt að hann geti ekki staðið undir því. Hann geti ekki staðið undir því að borga miklu minna og vera að eignast sitt eigið húsnæði með hlutdeildarláni heldur en hann borgar á leigumarkaði. Ég spyr: Hvaða heimska er þetta? Hvernig í ósköpunum getum við búið til einhverja hjálp fyrir fólk og sagt: Þið fáið þessa hjálp, en lemja svo á því og neita að sjá staðreyndirnar? Þetta er gjörsamlega óskiljanlegt fyrirbrigði og ég veit ekki á hvaða vegferð sú ríkisstjórn er sem sendir svona skilaboð út. Hún er a.m.k. ekki að aðstoða og hjálpa þeim sem verst hafa það.

Við vitum öll og kannanir hafa sýnt það að þeir sem eru í verstri stöðu á leigumarkaði eru öryrkjar. Það segir sig sjálft að þessi leigukostnaður var óbærilegur en er orðinn gjörsamlega óþolandi og ólíðandi í dag. Að það skuli vera endalaust níðst á þessu fólki og hvorki framfærslan né bæturnar fylgja eftir. Við höfum fullt af staðreyndum um það. Ég fjallaði um það í störfum þingsins hvaða áhrif fátækt hefur á heilsu fólks. Fólk er að tapa upp undir tíu árum af lífi sínu vegna fátæktar. Samt hringja engar viðvörunarbjöllur. Að stærstum hluta voru það konur sem fóru verst út úr þessu. Að við skulum ekki gera eitthvað í málunum. Í þessi sjö ár sem Flokkur fólksins hefur verið á þingi höfum við reynt að berjast og berjast fyrir því að útrýma fátækt. Hvað skeður? Nei, þeir ætla að draga úr fátækt. Draga úr fátækt. Hvað þýðir það? Draga úr henni næstu hundrað árin, þúsund árin? Og þetta ótrúlega orðalag líka að ætla að draga úr skerðingum, hvað þýðir það? Um nokkra aura, krónu? Jú, þú getur gert það en það breytir engu. Annaðhvort afnemum við hlutina og útrýmum fátækt eða eins og gert var með t.d. krónu á móti krónu skerðingarnar, sem bitna rosalega illa á fólki, það var farið með þær í 65 aura á móti krónu — það er bara plástur, plástur frá ríkisstjórninni til þess að hún þurfi ekki að borga meira en hefur gífurlega lítil áhrif á stöðu þeirra sem þurfa á því að halda.

Nei, það er með ólíkindum að við skulum vera stödd þar í dag að barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar, öryrkjar með börn og fleira fólk, láglaunafólk, sé að óttast um stöðu sína á leigumarkaði vegna þess að það er ekki verið að hjálpa þeim. Það er ekki verið að stöðva þessa hringavitleysu sem leigufélögin er að bjóða upp á. Og það er ótrúlegt að það skuli vera hægt og við skulum heyra sögur af því að Vinnumálastofnun sé að yfirbjóða, það sé verið að henda einni fjölskyldu út af leigumarkaði með yfirboðum á leigu til að koma annarri fjölskyldu inn. Hvaða lausn er það? Hvaða rugl og bjálfaskapur er í gangi þegar við leyfum okkur svoleiðis vinnubrögð? Sama hönd liggur við er farin að lemja á einum leigjanda til að koma öðrum leigjanda að. Auðvitað á þetta ekki að líðast en því miður þá látum við þetta líðast.

Því miður verður bara að segjast alveg eins og er að áhuginn á þessum baráttudegi gegn fátækt, fyrir því að bæta kjör þeirra sem virkilega þurfa á því að halda, er ekki mikill. Kannski er ríkisstjórninni vorkunn, hún er búin að eyða miklum kröftum í ráðherrastólaskipti og er kannski þreytt eftir öll þau ósköp og hefur ekki orku í að hugsa um þá sem þurfa virkilega á því að halda. En við ættum alla vega öll og allir þarna úti að hugsa um það í næstu kosningum: Viljum við útrýma fátækt? Ég er alveg viss um að 99% af þjóðinni vilja það. Til þess að það geti skeð verður að breyta þessu. Það verður að fá nýja ríkisstjórn. Núverandi ríkisstjórn mun því miður ekkert gera í þeim málum.