154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu kynsegin fólks.

103. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar bara að nefna hérna seinni lið fyrra andsvars hv. þingmanns sem snerist um 3. gr. frumvarpsins, þessa heimild til að breyta kynskráningu oftar en einu sinni. Ég held að það sé ekkert svo hár þröskuldur eins og lögin eru í dag. En það er bara vegna þess að þjóðskrá er mjög lipur þessa dagana gagnvart þessum málaflokki. Við upplifðum það t.d. þegar trans skatturinn var felldur úr gildi að þjóðskrá beið tilbúin á starttakkanum eftir því að lögin birtust í Stjórnartíðindum til að geta breytt framkvæmdinni bara strax, voru með eyðublaðið tilbúið. Þau vilja gera vel í þessu, ég efast ekki um það. En í grunninn er þetta náttúrlega bara prinsippmál. Ef við leyfum fólki samkvæmt lögum að skilgreina kyn sitt sjálft og lítum á það sem grunnréttindi samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði, þá getum við ekki verið með, þó að það sé bara lágur þröskuldur. Við þurfum að afnema þá alveg. Kannski er það ári of langt. Ég setti það bara inn til að stressa ekki íhaldsfólkið. Mér þætti ekkert að því að vera með engin tímamörk. Ef þú skiptir um skoðun á morgun og vilt breyta kynskráningu aftur, ég sé ekki að það setji neitt af hjörunum. En ég er algerlega sammála því að þetta er eitthvað sem nefndin á að skoða út frá því sjónarhorni að standa vörð um þessi réttindi og þann hóp sem um er að ræða.