154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

almannatryggingar.

20. mál
[16:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Óréttlætið er fjölbreytt í lögunum og lagatúlkuninni sérstaklega, þetta með launavísitöluna eða launaþróun eins og hún er túlkuð, hvernig fjármálaráðuneytið fer með hana er bara verulega andstyggilegt. Það fer gegn allri almennri skynsemi að því er maður myndi halda þannig að ég þakka kærlega fyrir þetta frumvarp, með álíka frumvarp varðandi einmitt 62. gr. í almannatryggingalögunum til að útfæra hana á sama hátt og gert er fyrir þingmenn. Ef það er nógu gott fyrir þingmenn þá er það vonandi nógu gott fyrir alla aðra.

Hv. þingmaður minntist einmitt á málið hérna sem hún sagði að Flokkur fólksins hefði farið í mál vegna sem leiddi til þess að það voru endurgreiddir 7 milljarðar til eldri borgara. En það er einmitt mál sem við tókum upp hérna, Píratar á þingi, og átti að lauma í gegnum þingið. Þegar við fórum að skoða betur og spyrja betur hvernig stæði á þessu, að það væri ekkert kostnaðarmat á bak við frumvarpið, þá kom það upp úr dúrnum að nei, ríkið er að græða á þessu, af því að það var að búa til í rauninni afturvirkar skerðingar sem urðu þá til staðar. Það eru nokkur önnur mál sem við erum að glíma við. Ég er mikið búinn að reyna að vinna það inni í fjárlaganefnd, og núna er það inni í velferðarnefnd, mál um það hvernig lífeyrisgreiðslur eldra fólks eru skertar, af því að það er í rauninni ekki heimild í lögum til að telja þær sem atvinnutekjur en Tryggingastofnun fer með lífeyrissjóðsgreiðslur eins og atvinnutekjur. Þar munar nú um minna líka þannig að pottur er víða brotinn í þessum málum og við þurfum að láta löggjöfina verða skýrari og í rauninni framkvæmd laganna verða samkvæmt vilja þingsins.